
Vinnustaður mannsins kominn í sóttkví
Guðrún segir að þeir sem búi á sama heimili og maðurinn sé komnir í sóttkví og svo vinnustaður mannsins sem er ekki stór.
Hún segir erfitt að segja til um hversu margir verði settir í sóttkví , það eigi eftir að koma í ljós því það vanti svör við sumum spurningum, til að mynda hvort fleiri séu að greinast með eitthvað. Guðrún segir að þeir sem hafi verið í samskiptum við manninn eigi að hafa samband við 1700. Hún reiknar ekki að rakningin taki ekki langan tíma, unnið verði að þessu alla helgina. „Við höldum bara áfram eins lengi og þarf.“
Tilkynnt var í dag að fyrsta tilfellið af COVID-19 veirunni hefði greinst hér á landi. Viðbúnaðarstig almannavarnavarna hefur verið fært úr óvissustigi yfir á hættustig en áður hafði veiran greinst á öllum hinum Norðurlöndunum. Norrænu sjúklingarnir virðast margir eiga það sameiginlegt að hafa verið á Norður-Ítalíu.
Maðurinn sem greindist í dag er á fimmtugsaldri og var í skíðaferðalagi ásamt eiginkonu sinni og dóttur í bænum Andalo á Norður-Ítalíu. Hann fór utan 15. febrúar og kom til Íslands viku síðar eða 22. febrúar. Hann er ekki bráðveikur og líðan hans með ágætum. Hann dvelst nú í einangrun á smitsjúkdómadeild Landspítalans og aðstoðar heilbrigðisyfirvöld við að rekja ferðir sínar.