Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vinnueftirlitið fer strax í Stay Apartments

06.06.2016 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vinnueftirlitið ætlar að bregðast við fréttum af starfsmannamálum fyrirtækisins Stay Apartments strax í dag. Forstjóri eftirlitisins segir að það hafi áður haft afskipti af starfsmannamálum fyrirtækisins.

Fyrirtækið Stay Apartments býður ferðamönnum íbúðir til útleigu á nokkrum stöðum í Reykjavík. Eins og greint var frá í fréttum í gær var átta manns, sem unnu við þrif hjá fyrirtækinu, sagt upp eftir að þeir kröfðust þess að fá fasta starfsmannaaðstöðu. Halldór Gerhard Meyer, eigandi Stay Apartments, viðurkenndi í fréttum í gær að hafa beygt reglur í ellefu ár. Starfsfólkið notaði klósett í íbúðunum sem það var að þrífa. Það er ekki í samræmi við reglugerð um húsnæði vinnustaða. Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins, segir að reglurnar séu skýrar.

Starfsmannaaðstaða lögð niður

„Við teljum þetta mjög alvarlegt mál. Þetta starfsfólk á eins og allir aðrir rétt á að hafa starfsmannaaðstöðu. Hún snýst ekki bara um salerni, hún snýst um mat og kaffistofur, aðstöðu til að skipta um föt, aðstöðu til að hafa aðgang að persónuhlífum og annað sem til þarf vegna starfsins,“ segir Eyjólfur.

Hefur Vinnueftirlitið haft einhver afskipti af þessu fyrirtæki áður?

„Já við höfum haft það. Eins og málið var lagt upp fyrir okkur var þarna starfsmannaaðstaða. Þá voru reyndar færri starfsmenn, þetta er allt í örum vexti eins og menn vita, þessi atvinnugrein. En þegar farið var þarna í eftirlit var þarna starfsmannaaðstaða en hún var síðan tekin undir gistingu og lögð niður.“

Gerðuð þið athugasemdir við það?

„Við vissum ekki af því.“

Ætlar Vinnueftirlitið eitthvað að bregðast við þessu núna?

„Að sjálfsögðu. Við munum fara þarna strax í dag og það verður farið yfir þessi mál með forsvarsmönnum þessa fyrirtækis.“

Hvað getur Vinnueftirlitið gert? Eru einhver viðurlög eða eitthvað slíkt?

„Já. Við getum bæði lagt á dagsektir en ef mál er alvarlegt getum við líka stöðvað vinnu,“ segir Eyjólfur.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV