Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vinnubrögð Þjóðminjavarðar ekki henni sæmandi

Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV

Vinnubrögð Þjóðminjavarðar ekki henni sæmandi

11.03.2016 - 12:33

Höfundar

Framkoma og vinnubrögð Þjóðminjavarðar eru henni ekki sæmandi. Þetta segir prófessor við Háskóla Íslands. Hann og aðrir sem sátu í samstarfsnefnd um nýjan samstarfssamning Háskólans og Þjóðminjasafnsins þvo hendur sínar af samningnum og segja hann gerðan í reykfylltum bakherbergjum.

Þeir fjórir fulltrúar Háskóla Íslands og Þjóðminjasafnsins sem mynduðu samstarfsnefnd þessara stofnana sendu fjölda manna í Háskólanum, Þjóðminjasafninu og víðar harðorðan póst í morgun vegna vinnubragða í kringum nýjan samstarfssamning HÍ og Þjóðminjasafnsins, sem undirritaður var 29. febrúar.

Í póstinum segir að nefndin hafi haldið 16 fundi frá febrúar 2014 til febrúar 2015. Þá var Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður í ársleyfi. Þegar hún sneri til starfa hafi drög að samstarfssamningi legið fyrir. Þá lögðust öll fundahöld nánast af og sjö mánuðum síðar hafi samstarfsnefndin séð ný drög sem voru gjörbreytt frá því sem áður var.

Á að bera hag HÍ og Þjóðminjasafns fyrir brjósti

Fulltrúarnir fjórir fordæma harðlega þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við gerð samningsins og segjast enga ábyrgð bera á honum. 

„Þetta er í raun og veru samningur sem gerður er í reykfylltum bakherbergjum, og á sama tíma þá gengur þjóðminjavörður fram og styður tillögur forsætisráðherra um sameiningu Þjóðminjasafnsins og Minjastofnunar,“ segir Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor við Háskóla Íslands, sem er einn nefndarmanna.

Í póstinum segir að miðað við þær hugmyndir sem fram komi í frumvarpinu um sameiningu Þjóðminjasafnsins og Minjastofnunar séu allar hugmyndir um að Þjóðminjasafnið verði háskólastofnun í uppnámi.

Fjórmenningarnir fara hörðum orðum um Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð í póstinum.

„Já, ég held að það sé óhætt að segja það. Mér finnst að hún hafi ekki komið fram eins og henni sæmir sem þjóðminjavörður sem eigi að bera hag, ekki bara Þjóðminjasafnsins, heldur líka Háskóla Íslands, fyrir brjósti og koma fram af ákveðinni virðingu, ákveðnu trausti, ákveðnum heiðarleika,“ segir Sigurjón.