Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vinnsla Google geti ekki talist ópersónuleg

epa05950783 A visitor looks at the offers at the booth of technology giant 'Google' at the 're:publica 17' digital conference on its opening day in Berlin, Germany, 08 May 2017. The 're:publica' is one of the largest
 Mynd: EPA
Nýlega greindi belgíska ríkisútvarpið frá því að verktaki hjá Google hefði lekið til þess þúsundum upptaka sem snjallhátalari tók upp inni á heimilum. Því hefur verið velt upp hvort meðferð Google á gögnum þeirra sem nýta ýmsa snjallþjónustu standist persónuverndarlög. Innlendir sérfræðingar sem fréttastofa ræddi við hallast hvor í sína áttina. 

 

Telur fólk hafa gefið samþykki fyrir vinnslunni

Verktakinn er einn fjölmargra sem vinnur við að fara yfir hljóðskipanir sem notendur snjalltækja gefa tækjunum. Samkvæmt stórfyrirtækinu hlusta verktakar á 0,2% slíkra skipana til að gera þeim kleift að skilja notendur betur. Verktakanum fannst margar upptökurnar innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar. Þess vegna lak hann þeim. „Það gerðist ekkert óeðlilegt þarna nema það að það varð þessi gagnaleki, hann átti ekki að eiga sér stað en ferlarnir sem slíkir eru bara eðlilegir. Það var ekkert sem Google var að gera sem var óeðlilegt,“ segir Jón Guðnason, forstöðumaður Gervigreindarseturs Háskólans í Reykjavík. Hann gerir ráð fyrir því að fólk hafi með því að samþykkja skilmála Google gefið samþykki fyrir vinnslu þessara upplýsinga.

Þetta snúist um væntingar

Hörður Helgi Helgason, lögmaður og fyrrverandi forstjóri Persónuverndar er á öðru máli. „Ef horft er bara út frá því að veita þjónustuna er hún eflaust algerlega eðlileg. Spurningin snýst kannski meira um það hvort notendur mega búast við því að það séu teknar upptökur af því sem þeir eru að segja og lagðar fyrir hóp af fólki til að greina og geyma.“ Það kemur líka fyrir að tækin taki óvart eitthvað upp og sendi út á netið til greiningar, án þess að það hafi verið ætlun notandans að gefa skipun. 

Samþykkið kannski ekki nógu upplýst

Hörður segir ný persónuverndarlög skylda fyrirtæki til að afla upplýsts samþykkis fyrir vinnslu persónuupplýsinga, ákvæði þeirra séu afdráttarlausari en fyrri laga. Hann telur að fólk sem samþykkir skilmálana búist ekki endilega við því að annað fólk hlusti á einhverjar þeirra þó í skilmálum sé talað um unnið verði með gögnin til að bæta þjónustuna. Hörður hallast að því að samþykkið hafi ekki verið nægilega upplýst. „Það er óafgreitt hvort það dugar eða ekki en í ljósi úrskurða persónuverndarstofnana sem þegar hafa fellt slíka úrskurði virðist það að minnsta kosti vafasamt. Þegar um er að ræða hljóðupptökur eða myndupptökur á heimilum fólks, í stofum eða svefnherbergjum, má gera ráð fyrir að væntingar hinna skráðu séu þess eðlis að það sé rétt að tryggja rækilega upplýst samþykki áður en efnið er tekið og flutt út í heim.“ Franska persónuverndarstofnunin hafi þannig í upphafi árs sektað Google um 50 milljónir evra. 

Belgískum hjónum brá í brún

Hann segir Google skýla sér á bak við það að upptökurnar séu ekki persónurekjanlegar en að umfjöllun belgíska ríkisútvarpsins hafi sýnt fram á það gagnstæða. Belgískum hjónum brá í brún þegar fréttamaður belgíska ríkisútvarpsins bankaði upp á og spilaði fyrir þau upptöku sem tekin var inni á heimili þeirra af snjallhátalara frá Google. Þar kom fram heimilisfang þeirra og auk þess heyrðist i´syni þeirra og barnabarni. „Þá stenst þessi forsenda ekki lengur hjá Google að um sé að ræða ópersónugreinanlega vinnslu,“ segir Hörður Helgi. 

Brotið verktakans

Jón telur að brotið sé einungis verktakans, ekki stórfyrirtækisins en segir mikilvægt að almenningur verði meðvitaðri um hvernig fyrirtæki noti þessi gögn. „Þeim mun meira sem almenningur kemur að þessu þeim mun betur fara þessi fyrirtæki með gögnin.“

Íslenskur verktaki hlýði á íslenskar upptökur

Snjalltæki Google skilur íslensku að litlu leyti og snjallheimilisbúnaður Google er alveg ótalandi. Íslenskan hefur því veitt ákveðna vörn en það kemur til með að breytast, Jón er að þróa íslenskan talgervil. „Við erum að vinna að því að gera þessa tækni betri og betri og þá kemur að því að það er hægt að greina það sem við segjum hér á íslandi og á að vera bara alveg eins og í öðrum tungumálum.“

En myndu þá íslenskumælandi verktakar hlusta á hluta upptakanna? Jón segir það hugsanlegt en að það væri þó líka hægt að finna aðrar leiðir. 

Ísland er lítið land, hér þekkja kannski ekki allir alla en margir þekkja marga og því hætt við því meiri líkur á því að verktaki myndi hlýða á upptöku af heimili einhvers sem hann þekkir. Það hafa líka komið upp álitamál tengd glæpsamlegu athæfi sem verktakar kunna að fá veður af. Hvort það eigi að liggja í þagnargildi. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV