Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vinna hraðar eftir styttingu vinnuvikunnar

24.08.2019 - 14:28
Mynd með færslu
 Mynd: Matthew Henry - Burst
Stytt vinnuvika hefur þau áhrif að fólk upplifir meiri lífsgæði og líður betur bæði í vinnunni og heima, samkvæmt nýrri skýrslu félagsmálaráðuneytis um niðurstöður rýnihópa og viðtala við starfsmenn og maka þeirra eftir 12 mánaða tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar.

Skýrslan er byggð á eigindlegri rannsókn, gögnum var safnað með rýnihópum og viðtölum á þeim vinnustöðum sem tóku þátt á tímabilinu mars/apríl 2017 til maí 2018. Að mati stjórnenda vann starfsfólk hraðar, lagði meira af mörkum og tók styttri pásur. Þá töldu stjórnendur að meira væri um samstarf og samhjálp á vinnustöðum eftir styttingu vinnuvikunnar. Heildarvinnutíminn styttist samkvæmt tímaskýrslum en þó vann starfsfólk áfram yfirvinnu vegna álagstoppa og undirmönnunar.

Ánægja með að hætta fyrr á föstudögum

Starfsfólk sem rætt var við vegna skýrslunnar talaði um að tíminn eftir vinnu nýttist betur til að sinna fjölskyldu, vinum og tómstundum. Hjá þeim sem luku vinnudeginum klukkan 14:00 á föstudögum var mikil ánægja var með styttingu vinnutímans en almennt fannst viðmælendum helgarnar lengjast. Fólk í vaktavinnu kvaðst hafa verja meiri tíma með fjölskyldunni en áður. Fólk í dagvinnu taldi sig þó oftar en áður fara frá hálfloknum verkefnum í lok dags og halda áfram með þau daginn eftir.

Orkumeiri eftir vinnudaginn

Viðtöl við einstæða foreldra leiddu í ljós að þeir eiga auðveldara með að sameina vinnu og einkalíf, sinna börnum og stytta tíma til ferða til og frá vinnu eftir að vinnutími var styttur. Þá fannst þeim þeir vera orkumeiri að vinnudegi loknum en áður en vinnuvikan var stytt.

Þátttakendur í rýnihópunum voru 60 og tóku flestir þeirra þátt þrisvar sinnum. Alls tóku 10 stjórnendur með mannaforráð þátt í rýnihópunum. Þátttakendur af landsbyggðinni voru 24 og þátttakendur í Reykjavík 36.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir