Vinna 20 tíma vaktir í veiðihúsum

31.08.2019 - 21:02
Mynd með færslu
Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar því ekki beint. Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Dæmi eru um að starfsfólk veiðihúsa sé vaktsett í tæpan sólarhring samfleytt. Starfsgreinasambandið ætlar að fá vinnueftirlitið með sér í lið til að grípa í taumana.

Veiðihúsin eru mikilvægur partur að veiðisumrinu hjá mörgum veiðimönnum. Þar starfar fólk sem er að stórum hluta í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins, en þangað hafa borist ábendingar að brotið sé á fólkinu. „Þetta eru alvarleg dæmi. Við erum með dæmi um fólk sem er vaktsett frá sex á morgnanna til tvö á nóttunni, og það eru fleiri slík dæmi,“ segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins 

„Við myndum væntanlega reyna að fá vinnueftirlit og vinnustaðaeftirlitið okkar með okkur í lið og ganga í þessi mál,“ segir Flosi jafnframt.

Starfsgreinasambandið óskaði eftir upplýsingum frá Landssambandi veiðifélaga um kjarasamninga og aðbúnað starfsfólks í veiðihúsum um miðjan ágúst.  Landssambandið segist ekki hafa afskipti af veiðifélögunum. Þau starfi sjálfstætt - þó að skylduaðild sé að Landssambandinu sem annist sameiginleg hagsmunamál. Langflest veiðifélaganna leigja árnar út til leigutaka sem sjá um sölu og rekstur húsanna á veiðitímabilinu. Þetta segir Flosi í svari til Landssambandsins umhugsunarvert, að sambandið geti hunsað svo stóran hluta af rekstri veiðifélaga og veiðihúsa. Þá séu vonbrigði að Landssambandið sýni engan áhuga á að aðstoða SGS og firri sig allri ábyrgð.

„Ég hef miklar efasemdir um í ljósi keðjuábyrgðar og fleiri hluta að þau geti sagt með þeim hætti - það kemur okkur ekkert við hvernig kjarasamningar, aðbúnaður eða annað er, af því við erum búin að leigja þetta frá okkur,“ segir Flosi.

„Þeim ber að sjá til þess að þeir leigutakar sem þeir treysta, standi við það sem þeim ber að standa við. Ég held að þessi handaþvottur landssambandsins, standist engan veginn,“

Næstu skref segir Flosi vera að hafa samband við veiðihúsin sjálf og inna þau eftir upplýsingum um aðbúnað starfsfólks. „Núna er svona þessu veiðitímabili að ljúka, svo kannski verður eitthvað að þessu að bíða vorsins en við erum hvergi nærri hætt,“ segir Flosi.

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi