Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vindurinn rúllaði snjónum í bolta í Öræfum

14.01.2020 - 11:08
Innlent · Óveður · Suðurland · Öræfi · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Þorsteinn Roy Jóhannsson - Aðsend mynd
„Það er búið að vera ansi hvasst,“ segir Hafdís S. Roysdóttir sem býr að Svínafelli í Öræfum. Appelsínugul viðvörun hefur verið í gildi á Suðausturlandi vegna norðaustan stormi og roki.

Sjálfvirkar veðurstöðvar Vegagerðarinnar við Sandfell, fjórum kílómetrum frá Svínafelli, mældu sterkar vindhviður í morgun. Sú sterkasta mældist 58 m/s.

Vindhviðurnar voru svo sterkar í gær að snjóboltar mynduðust. Vindurinn feykti snjónum og velti honum áfram, segir Hafdís.

Aðspurð segist Hafdís merkja það að veðrinu sé farið að slota. „Snjórinn rýkur ekki eins og hann gerði í gær. Það er eiginlega bara mest af snjónum fokinn,“ segir Hafdís. Snjórinn sé núna blautur og þungur.

„Þetta byrjaði í gærkvöldi, um sexleytið hér í gær,“ segir Hafdís sem er kennari við grunnskólann í Hofgarði. Þar var skólahald fellt niður kl. 14 í gær vegna veðurs. Skólahaldi var svo aflýst í dag líka, í það minnsta til hádegis þegar veðurviðvörunin fellur úr gildi.

Sex nemendur stunda nám við grunnskólann í Hofgarði og er kennt frá 1. bekk upp í 10. bekk.

„Það var ansi blint að keyra þessa 12 kílómetra heim frá skólanum,“ segir Hafdís sem hefur búið að Svínafelli í 30 ár. Hún segir að skólahaldi sé ekki aflýst vegna þungrar færðar á vegum og snjóa heldur vegna hvassviðris. „Hér milli Svínafells og Hofs virðist vindstrengur ná að magnast upp og þar verður ansi hvasst.“

Jákvætt að loka vegum í óveðri

Þjóðvegur 1 um Öræfi er lokaður og hefur verið það síðan í gær. Hafdís telur það mjög jákvætt að Vegagerðin sé farin að loka þjóðvegum vegna veðurs í eins konar forvarnarskyni. Það hafi verið allt of mikið um að fólk hafi anað út í veður sem það réð svo ekki við.

En henni þykir skrítið að sjá engan bíl á ferð um þjóðveginn. „Þetta er bara eins og í gamla daga,“ segir hún og bendir á að alla jafna sé mikil umferð ferðamanna allt árið á þessum slóðum.