Vindmyllur við Lagarfoss aðeins byrjunin ef vel gengur

28.11.2019 - 17:56
Mynd með færslu
 Mynd: Vindmyllur við Lagarfossvirkjun - Orkusalan
Áform Orkusölunnar um vindmyllur á Úthéraði eru farin að skýrast og í dag var kynnt svokölluð deiliskipulagslýsing. Gert er gert ráð fyrir tveimur vindmyllum sem yrðu samtals allt að 10 megavött og allt að 160 metra háar.

Orkusalan hafði fyrst hug á að reisa viðmyllur á Héraðssandi en sveitarfélagið Fljótsdalshérað treysti sér ekki til að fallast á þau áform. Það hefði útheimt breytingu á aðalskipulagi og var þeim hugmyndum vísað í mögulega skoðun á hentugustu staðsetningum innan sveitarfélagsins.

Orkusalan færði þá fyrirhugaða staðsetningu til um 12 kílómetra og inn fyrir sína eigin girðingu. Fyrirtækið býr svo vel að eiga iðnaðarsvæði í kringum Lagarfossvirkjun og það er skilgreint sem orkuvinnslusvæði í aðalskipulagi. Á sínum tíma var hugsunin þó ekki að slík starfsemi yrði jafn háreist og áformaðar vindmyllur, allt að 160 metrar á hæð, mælt upp í spaða í efstu stöðu. Vænghaf spaðanna yrði 110-120 metrar. Í sumar gaf Fljótsdalshérað grænt ljós á að Orkusalan gerði tillögu að breyttu deiliskipulagi við Lagarfoss með vindmyllum. Í því ferli mun íbúum gefast kostur á að gera athugasemdir og Fljótsdalshérað þarf að samþykkja skipulagið. Vindmyllurnar myndu sjást víða að og yrðu í 700 metra fjarlægð frá gistihúsum fyrir ferðamenn við bæinn Ekru.

Plaggið sem kynnt var í dag er lýsing á deiliskipulagsvinnunni fram undan. Þar kemur fram að skoða þurfi áhrif á jarðmyndanir, fornminjar, gróður, fugla, ásýnd og landslag. Einnig áhrif á samfélag, atvinnu, útivist og ferðamennsku á Fljótsdalshéraði. Stefnt er að því að nýja skipulagið taki gildi í vor. Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar, segir að fyrirtækið vilji stíga varlega til jarðar og sjá hvernig reynslan verði af þessum tveimur vindmyllum. Verði hún góð væri hægt að skoða frekar vindorkuframleiðslu á Úthéraði.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi