Villueyjar – Ragnhildur Hólmgeirsdóttir

Mynd: Bókabeitan / Bókabeitan

Villueyjar – Ragnhildur Hólmgeirsdóttir

08.01.2020 - 09:49

Höfundar

Villueyjar er ungmennabók sem gerist í sama ímyndaða heimi og fyrri bók Ragnhildar Hólmgeirsdóttur, Koparborgin, frá árinu 2015, en í öðru landi og á öðru tímbili. Koparborgin gerðist á stað sem minnti á ítalskt borgríki, líklega í kringum árið 1500, á meðan nýja bókin gerist í landi sem heitir Eylöndin og minnir á Bretlandseyjar í kringum aldamótin 1900. Bækurnar eru þó fyrst og fremst fantasíur og heimurinn þar lýtur sínum eigin lögmálum.

Ragnhildur hefur lýst Villueyjum sem ráðgátu, en aðalpersónan, hin fjórtán ára gamla Arilda, lendir óvænt í miklum lífsháska og þarf í kjölfarið að leysa þá ráðgátu hvaða bölvun liggur á nýlenduveldinu Eylöndunum og hvernig hún tengist skelfilegum örlögum fjölskyldumeðlima hennar. Það er mikill óhugnaður í sögunni sem tengist blóðugri sögu Eylandanna þar sem þjóðarmorð á drúídum skapaði grundvöll konungsríkisins og miskunnarlaus nýlendustefna viðheldur því. Við erum minnt á að mannkynssagan er sögð af sigurvegurum og að yfirleitt leynast aðrar og myrkari sögur á bak við glansmyndina sem sigurvegararnir draga upp af sér. Lesandinn fylgist með Arildu takast á við kröfuna um að sópa ekki slíkum sögum undir teppið og berjast um leið fyrir eigin velferð og þeirra sem standa henni næst.

Bækur Ragnhildar hafa fengið ýmsar viðurkenningar og má nefna að Koparborgin fékk Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs. Villueyjar hafa líka verið tilnefndar til Fjöruverðlaunanna.

Mynd: Bókabeitan / Bókabeitan