Reyndu að finna Ryan Gosling
„Það er næstum akkúrat ár síðan við sátum hér í viðtali á leið beint til Toronto á kvikmyndahátíðina að sýna myndina,“ rifjar Eyrún upp og lítur á Elínu sem kinkar kolli. „Eitt það skemmtilegasta við að rifja þessa mynd upp er að hitta Eyrúnu aftur, við hittumst ekkert alltof oft,“ svarar hún kímin.
Myndin vakti mikla athygli á Toronto-kvikmyndahátíðinni og það var væntanlega sérstök upplifun fyrir óreyndar leikkonur að vera þekkt andlit á risastórri hátíð. „Þetta var svolítið steikt,“ viðurkennir Elín en bætir við: „Ég var alltaf að reyna að finna Ryan Gosling en fann hann aldrei.“
Eyrún tekur í sama streng og segir Elínu hafa lóðsað sig um í leit að stórleikaranum en þær gripu því miður í tómt þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að koma á fundi.
Mundi fyrst bara eftir því sem var gaman
Leikkonurnar segjast báðar sjá myndina í glænýju ljósi eftir að öðlast smá fjarlægð með tímanum. „Þegar myndin kom út sá ég hana alveg þrisvar og upplifði alls ekki það sama og flestir töluðu um, að þetta væri svona sárt. Ég fann það ekki því ég hugsaði frekar: „Oh, djöfull var þetta gaman.“ Þegar ég horfði á hana í sjónvarpinu hins vegar með pabba mínum og stjúpmömmu nú nýlega áttaði ég mig fljótt á að ég vildi ekki sjá meira, mér fannst þetta allt ótrúlega hræðilegt,“ segir Eyrún en eins og allir þeir sem myndina hafa séð vita að hún er gífurlega átakanleg á köflum.
Undirbúningur fyrir hlutverkin tók næstum heilt ár og segjast þær hafa lagt hart að sér til að kynnast Stellu og Magneu til að komast í karakter fyrir tökurnar. „Við þurftum líka að kynnast hvor annarri sérstaklega vel. Á mörgum æfingum vorum við bara tvær en við lásum líka dagbækur og hittum fólk sem hafði verið í mikilli neyslu sem gat deilt reynslu sinni með okkur,“ rifjar Elín upp. „Það var áreiðanlega það erfiðasta því þó bíómyndin sé sviðsett þekkjum við fólkið á bak við söguna.“
Hágrétu í kór eftir erfiða vinnudaga
Aðspurðar hvort karakterarnir sitji eftir í þeim eftir að verkefninu lauk lítur Elín á Eyrúnu og spyr hana glottandi hvort hún sé jafn mikill tuddi og Stella. „Nei, ég er alveg miklu ljúfari en ég var,“ svarar Eyrún og hlær. „Þegar á sýningum stóð lagði ég mig frekar fram við að sýna fram á að ég væri alls ekki vond og leiðinleg í alvörunni.“
Ferlið var bæði skemmtilegt en líka erfitt og strangt á köflum og leikkonurnar viðurkenna að stundum hafi álagið gengið afar nærri þeim. „Ég man til dæmis eftir einu skipti á Spáni þegar við höfðum komið heim þreyttar eftir langan tökudag, en í staðinn fyrir að fara að sofa spjölluðum við langt fram á morgun og vöknuðum svo klukkan sjö eftir mjög lítinn svefn.“ Hún lítur á Elínu sem man augljóslega eftir þessu atviki. „Mamma hringdi í mig og spurði hvernig ég hefði það og í staðinn fyrir að svara hágrenjaði ég, leit á Elínu sem byrjaði samstundis líka að grenja. Við vorum alveg búnar á því.“
„Manstu eftir villisvínunum?“
Í myndinni myndast ástarsamband á milli þeirra Stellu og Magneu og þær eru afar innilegar í nokkrum senunum. Aðspurðar hvort það hafi verið erfitt fyrir reynslulitlar leikkonur að leika í þeim atriðum svara þær báðar neitandi. „Það var allavega ekkert erfitt að byggja upp rómantískt samband okkar á milli en þegar kom að því að taka upp kynlífssenuna ákvað Baldvin allt í einu á síðustu stundu að það ætti að taka hana upp úti á götu,“ rifjar Eyrún upp og brosir.
Senan var því ekki tekin upp í rúmi inni í herbergi sem þær eru sammála um að hefði verið einfaldara heldur var hún tekin upp undir berum himni og fylgdu því ýmsar óvæntar uppákomur. „Það var þarna lítill strætó með fullt af fólki ofar í brekkunni sem bilaði og svo birtist allt í einu einhver maður,“ rifjar Elín upp þegar Eyrún grípur fram í: „Já, og manstu eftir villisvínunum? Allt í einu var Púmba bara mættur.“ Elín hlær við tilhugsunina og svarar: „Ég var svo hrædd að ég fór næstum því að gráta.“
Leikaraval og Airwaves
Myndin vakti mikla athygli sem fyrr segir og eitt af því sem henni var mikið hrósað fyrir var sterkur og sannfærandi leikur, ekki síst hjá Eyrúnu og Elínu. Í dag er nóg um að vera hjá þeim báðum þótt þær séu ekki byrjaðar að leika næsta stóra hlutverk. Eyrún er að vinna í Sundhöllinni og að aðstoða við leikaraval í stórum verkefnum en Elín er að leggja lokahönd á fyrstu plötuna sína en hún kemur fram á Airwaves í ár og syngur þar nokkur lög af henni.
Hægt er að horfa á Lof mér að falla í Spilara sjónvarpsins með því að smella hér en leikkonurnar mæla sjálfar með því að þeir sem enn ekki hafa séð myndina horfi á hana með einhverjum sem þeim þykir vænt um.
Snærós Sindradóttir og Mikael Emil Kaaber ræddu við Elínu Sif Halldórsdóttur og Eyrúnu Björk Jakobsdóttur í Endalausu útvarpi og hægt er að hlýða og horfa á viðtalið allt í spilaranum efst í fréttinni.