Vill varðveita þekkingu um torfbæi

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðminjasafn Íslands - RÚV

Vill varðveita þekkingu um torfbæi

10.07.2019 - 08:59

Höfundar

Aðferðir við byggingu torfbæja og viðhald þeirra eru menningararfur sem þarf að varðveita, segir rannsakandi við Háskólann á Hólum. Hún vinnur að því að kanna viðhorf fólks til torfbæja og skrá heimildir um áður óþekkta bæi.

Kanna á viðhorf almennings til torfbæja og verklagsins við byggingu þeirra í rannsókn sem Sigríður Sigurðardóttir, kennari við ferðamáladeild Háskólans á Hólum, stendur fyrir ásamt Þjóðminjasafni, Minjastofnun, Byggðasafni Skagfirðinga og Rannsóknamiðstöð ferðamála. Slíka þekkingu þurfi að varðveita og skrá.

Þekkingin hverfur með elstu kynslóðinni

Kunnátta og þekking á handverki og vinnubrögðum í kringum torfbæi á undir högg að sækja, en samt sem áður krefjast torfbæjir mikils viðhalds ef ásýnd þeirra á að varðveitast. Sigríður segir það vera mikilvægt að fá fram viðhorf almennings til torfbæja.

„Einkum og sér í lagi hef ég áhuga á því að heyra viðhorf sjálfra Íslendinga. Hvað vilja þeir með þessi hús gera? Hvað vilja þeir, hvernig vilja þeir sjá þau varðveitt og notuð í framtíðinni? Sú kynslóð sem nú er að hverfa frá okkur er sennilega sú seinasta sem við getum sagt að margir hafi vitað hvernig ætti að gera þetta. þeir voru kannski ekki að praktísera þetta allan tímann en voru kannski að viðhalda sínum eigin húsum,“ segir Sigríður.

Fjöldi óskráðra bæja í landinu

Til að varðveita þekkinguna hafa meðal annars verið haldin námskeið í grjóthleðslu og viðhaldi torfbæja á vegum Fornverkaskólans sem Byggðasafn Skagfirðinga heldur utan um.

Samhliða rannsókninni á að skrásetja torfbæi sem ekki hafa verið skráðir áður en þeir eru fjölmargir, sérstaklega á Suðurlandi. Sigríður segir Íslendinga þurfa að gera það upp við sig hvort og þá með hvaða hætti standa eigi að varðveislu torfbæja

„Ef mikill vilji er meðal fólks, bara Íslendinga almennt, um að geyma vel þau hús sem við eigum, þá þurfum við að fara að snúa okkur að því,“segir Sigríður 

Mynd með færslu
Víðimýri í Skagafirði.