Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vill varðveita jarðir hjá þeim sem búa hér

21.07.2019 - 20:02
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir að varðveita verði jarðir á Íslandi í eigu þeirra sem búa á Íslandi. Boðuð lagasetning um jarðakaup útlendinga í haust á að byggja á fyrirmyndum í Noregi og Danmörku.

Erlendir auðmenn hafa undanfarin misseri safnað íslenskum landareignum og jafnvel eignast meirihluta veiðiréttar í heilu laxveiðiánum. Nú er svo komið að eigendur nærliggjandi jarða eru uggandi yfir þróuninni og stjórnvöld vilja grípa í taumana.

„Ég hef verið á þeirri skoðun að þetta sé fullkomlega óeðlilegt,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um jarðasöfnunina. „Og það sé jafnvel líka óeðlilegt að innlendir aðilar safni jörðum. Heilt yfir, ef við horfum 50, 100 ár fram í tímann þá er landið jafn mikil auðlind eins og hafið og annað hér og við verðum að varðveita það í eigu þeirra sem búa á þessu landi.“

Til þess að koma í veg fyrir jarðasöfnun fárra hafa starfshópar unnið að tillögum til lagasetningar sem Alþingi tekur líklega fyrir í haust. Fyrirmyndir nýrra laga hafa verið sóttar til Noregs og Danmerkur. Sigurður Ingi bendir á að svipaðar leiðir hafi verið bornar upp áður en ekki hlotið hljómgrunn.

„Ég tel að í núverandi ríkisstjórn sé hljómgrunnur fyrir því að skoða þessar leiðir betur og það er það sem við erum að vinna og vonandi endar með frumvörpum í haust,“ segir Sigurður Ingi.

Hann segir fyrirmyndirnar fyrst og fremst byggja á landnotkun. „Það sé ekki hægt að safna jörðum til þess eins að eiga þær, þú verður að nýta þær,“ segir Sigurður Ingi. „Þess vegna tengist þetta ekki bara jarðalögum eða ábúðarlögum, eða reglugerð um kaup útlendinga á landi á Íslandi, heldur fleiri lögum eins og skipulagslögum og fleiri þáttum sem við þurfum að skoða.“

„Og kannski þess vegna hefur þetta ekki gengið nægilega vel eftir, þó að margir hafi verið á þessari skoðun á undanförnum árum. Þess vegna setti þessi ríkisstjórn þetta í samstarf sem forsætisráðuneytið stýrir til forsætisráðuneytið stýrir til þess að leiða öll ráðuneyti að sömu lausn,“ segir Sigurður Ingi.