Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill tafarlausar aðgerðir vegna olíuleka á Hofsósi

23.01.2020 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra hefur veitt N1 frest til tíunda febrúar til að skila niðurstöðum úr rannsókn á olíumengun frá bensínstöð fyrirtækisins á Hofsósi. Formaður byggðarráðs Skagafjarðar segir það alvarlegt ef jarðvegur á Hofsósi sé olíumengaður.

Staðfest hefur verið að olía lak úr birgðatanki bensínstöðvar N1 á Hofsósi í nokkurn tíma og hefur tankurinn verið tekinn úr notkun. Fólk í nærliggjandi húsum hefur kvartað undan bensínlykt og fimm manna fjölskylda hefur ekki getað búið heima hjá sér í tæpa tvo mánuði vegna þess. Niðurstöður úr jarðvegssýnum hafa þó ekki sýnt fram á olíumengun.

„Mjög alvarlegt mál“

Byggðarráð Skagafjarðar hefur tekið þetta mál sérstaklega fyrir og Stefán Vagn Stefánsson, formaður þess, segir málið alvarlegt. „Og það er ljóst að N1 hefur gefið það út að þarna hafi farið 5-8000 lótrara af olíu eða bensínu í jarðveginn. Og fólk hefur þurft að flýjta himili sitt út af þessu sem er mjög alvarlegt mál.“

Verði að gera allt til að takmarka skaðann

Byggðarráð hefur átt fundi með Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra vegna málsins og þrýst á að málinu verði fylgt eftir þar. Þá segir Stefán að óskað hafi verið eftir fundi með forstjóra N1 í byrjun febrúar. „Og tryggja að í rauninni verði allt gert til þess að takmarka þann skaða sem orðið hefur og koma þessu í samt lag aftur.“

Rannsóknarniðurstöður liggi fyrir 10. febrúar

Á fundi heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra í gær kom fram að N1 hafi gert samkomulag við verkfræðistofu um að hefja forrannsókn á útbreiðslu og umfangi mengunar á Hofsósi. Nefndin gefur N1 frest til tíunda febrúar til að skila fyrstu niðurstöðum. Starfsleyfi bensínstöðvarinnar rann út fyrsta janúar og hefur heilbrigðisnefnd veitt N1 bráðabirgðastarfsleyfi til fyrsta júní. Þá renni út lokafrestur til að fara í nauðsynlegar endurbætur.

Ekki hægt að bíða með aðgerðir

Og Stefán segir að þarna þurfi að vinna hratt að lausn mála. „Þetta er bara grafalvarleg staða sem þarna er upp komin og  við getum ekki beðið með einhverjar aðgerðir í þessu. Það þarf að gera eitthvað strax.“