Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill styrkja doktorsnema í laxarannsóknum

07.08.2019 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Falur
Innan tíðar verður gengið frá samkomulagi efnaða jarðakaupandans Ratcliffes við Hafrannsóknastofnun en auðkýfingurinn ætlar að greiða fyrir doktorsstöðu í laxarannsóknum við háskólann. 

Í tilkynningu frá Ratcliffe í gær, í tilefni af kaupum hans á jörðinni Brúarlandi 2 í Þistilfirði, segir að kaupin séu hluti af uppbyggingu á sjálfbæru verndarsvæði laxa á Norðausturlandi. Til þess að auka lífslíkur laxastofnsins standi Ratcliffe líka að ítarlegri langtímarannsókn á afkomu laxins í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og háskóla innanlands og utan að því fram kemur í tilkynningunni. 

Vandi er velboðnu að neita

Guðni Guðbergsson sviðsstjóri ferskvatnslífríkis Hafrannóknastofnunar sagði í samtali við Fréttastofu í dag að starfsfólk Ratcliffs hafi leitað til stofnunarinnar og að hann vildi styrkja tvær doktorsstöður; aðra við Háskóla Íslands og hina við Imperial College í Lundúnum. Guðni segir Hafrannsóknarstofnun lengi hafa rannsakað ár fyrir norðan í samvinnu við veiðifélögin og eigi mikið af gögnum þaðan. Alvanalegt sé að meistara- og doktorsnemar séu í samstarfi við stofnunina og fái þar gögn og leiðsögn. Það sé hins vegar Háskóla Íslands að skipuleggja námið. Varðandi Hafrannsóknarstofnun sé ekkert í veginum fyrir að ganga frá samkomulagi, segir Guðni, og að vandi sé velboðnu að neita.