Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vill skoða viðskiptasiðferði Gamma

06.10.2019 - 11:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að skoða þurfi viðskiptasiðferði fjárfestingarsjóðsins Gamma eftir að eigið fé sjóðsins þurrkaðist nánast upp. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill gefa forsvarsmönnum sjóðsins svigrúm til þess að komast að því hvað fór úrskeiðis. 

Eignir sjóðsins voru metnar á 4,4 milljarða króna um síðustu áramót en eigið fé hans er nú metið á 42 milljónir króna. Óháðir utanaðkomandi sérfræðingar hafa verið fengnir til að fara yfir málefni sjóðanna. Málið var rætt í Silfrinu í dag. 

„Ég held að menn muni spyrja, hvert var hlutverk FME? Hver átti að fylgjast með og hvenær og segja til um að þarna væri eitthvað ekki í lagi? Ég hugsa að það verði líka að skoða viðskiptasiðferði í félaginu, viðskipti við tengda aðila og vinnustaðamóral. Við þurfum að kalla eftir þessu 

Það sem ég er ánægð með núna er þessi ríka krafa um skýringar strax og að menn ætli ekki að sætta sig við svona viðskiptahætti. Ef eitthvað bull er undirliggjandi, viðskiptasiðferði sem ekki er nægilega gott, þá verði sett stopp á slíkt. Ég er ánægð með viðbrögðin, þó ég sé ekki ánægð með þetta ferli,“ sagði Oddný G. Harðardóttir.  

Gefa strax eitthvað refsivert í skyn 

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði að málið svipi til þess sem var í gangi fyrir hrun. Krafa samfélagsins væri að hverjum steini yrði velt við þar sem umburðarlyndi fyrir svona vinnubrögðum væri ekkert í dag. Það muni hafa afleiðingar ef ekkert verði gert. 

Brynjar Níelsson sagði að Ragnar væri að mála skrattann á vegginn. 

„Ég ætla ekki að fara að dylgja mikið á þessu stigi málsins. Ég reikna með að þeir sem eiga hagsmuni að gæta muni vilja velta við hverjum steini og fá skýringar á þessu. En við skulum ekki fara fram úr okkur. Getur ekki verið að menn hafi bara gert mistök, vanmetið framkvæmdakostnað og hvernig markaðurinn myndi virka? Menn byrja strax að gefa í skyn að hér séu blekkingar og eitthvað refsivert. Mér finnst margt skrítið í þessu. En það er alltaf bent á einhvern annan. Leyfum mönnum að skoða þetta,“ sagði Brynjar Níelsson.