Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vill skoða svipaða leið og Færeyingar fara

24.07.2016 - 18:59
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Jón Gunnarsson, formaður Atvinnuveganefndar Alþingis, segir að markaðsleið við úthlutun aflaheimilda í sjávarútvegi sé til skoðunar. Tilraunir Færeyinga með uppboð hafa gefið góða raun að sögn Þórólfs Matthíassonar hagfræðings. Báðir hagnist, bæði færeyski landssjóðurinn og útgerðirnar.

Færeyingar hafa síðustu daga boðið upp fiskveiðikvóta en kerfið er tilraun til að bæta það kerfi sem fyrir er í Færeyjum við úthlutun aflaheimilda. Uppboðið er tilraun en 2018 rennur þeirra kvótakerfi út og nýtt tekur við. Mjög hátt verð fékkst í uppboðunum.

Þórólfur Matthíasson hagfræðingur segir mikilvægt að læra af tilraunum Færeyinga. Þær muni ekki aðeins móta færeyska kerfið heldur kerfi allra ríkjanna við Norður-Atlantshaf. „Landssjóðurinn er að fá fjórum til fimm sinnum hærri fjárhæð fyrir veiðiheimildirnar en veiðigjöldin voru sem þeir höfðu annars lagt á. Þannig að fyrir landssjóðin er þetta að koma mjög vel út. Fyrir útgerðirnar er þetta líka að koma þannig út að umtalsverður hluti af auðlindarentunni verður til baka þannig að það er svona ágætis hagnaðarskiptaregla sem er að koma út úr þessu og allir virðast ættu að geta verið ánægðir með þessa niðurstöðu, báðir hagnast,“ segir Þórólfur. 

Uppboðstilraunir Færeyinga hafa gefið góða raun og virðast skila margfalt meiri arði af auðlindinni til þeirra heldur en veiðigjöldin til Íslendinga. Formaður atvinnuveganefndar Alþingis segir koma til greina að taka upp svipað kerfi hér. „Ég setti nú nýverið fram hugmyndir sem snúa svolítið í þessa átt. Þær byggja á því að í stað veiðigjalda kæmu aflaheimildir sem væru með einhverjum hætti markaðssettar af hálfu hins opinbera. Ég tel að það væri margir kostir í þeirri stöðu að skoða slíkt og má segja að þar með sé komin ákveðin markaðstenging inn í kerfið í stað þessa formlega veiðigjalda sem við erum í dag það að rukka og hafa verið til ákveðinna vandræða, það er að segja forsendur útreikninganna. Jón Steinsson og Þorkell Helgason unnu skýrslu fyrir stjórnvöld fyrir nokkrum um þessa uppboðsleið. Var ekkert unnið með þá skýrslu? Nei þessi markaðsleið hefur ekki verið formlega skoðuð á Íslandi síðustu ár getum við sagt. En eins og ég segi ég held að það geti verið kostur í að skoða þá leið sem ég var að kynna.“