Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vill réttarhöld í anda Nürnberg

29.07.2019 - 11:56
epa00914918 Former Liberian leader Charles Taylor's lawyers (L-R) Karim Khan, a unidentified lawyer and James L. Supuwood attend a third status conference in the case of The Prosecutor vs. Charles Ghankay Taylor at the International Criminal Court in The Hague, Friday 26  January 2007. Taylor has been charged of crimes against humanity and violations of international humanitarian law, including murder, rape and the recruitment and use of child soldiers during the war in Sierra Leone.  EPA/KOEN VAN WEEL
Karim Ahmad Khan. Mynd: EPA - POOL
Breski lögmaðurinn Karim Ahmad Khan, sem fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna hefur rannsakað ódæðisverk hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins í Írak, vill að réttað verði yfir vígamönnum samtakanna á sama hátt og gert var yfir leiðtogum nasista í Þýskalandi í Nürnberg eftir seinni heimsstyrjöldina. 

Khan hefur síðan í fyrra rannsakað ódæðisverk Íslamska ríkisins frá því samtökin lýstu yfir stofnun kalífadæmis í Írak og Sýrlandi og þangað til þær voru brotnar á bak aftur.

Hann sagði í viðtali við fréttastofuna AFP að þetta væri umfangsmikið verk fyrir 80 manna hóp. Rannsaka þyrfti meðal annars líkamsleifar þúsunda manna úr fjöldagröfum og skoða þyrfti hundruð þúsunda myndbanda og skjala því að samtökin hefðu fest mörg ódæðisverka sinna á mynd. Meta þyrfti hvað flokkaðist undir stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyni eða þjóðarmorð. 

Khan sagði að á hverjum degi féllu dómar vegna glæpa í stríðinu í Írak, en engin fórnarlömb væru viðstödd. Hann sagði það mikilvægt að vitnisburðir og málsgögn yrðu opinber. Efna þyrfti til samskonar réttarhalda og í Nürnberg þar sem raddir fórnarlamba fengju að heyrast og hugmyndafræði vígasamtakanna hrakin.

Í réttarhöldunum í Nürnberg hefði verið lögð áhersla á að þýska þjóðin í heild væri ekki sek, heldur að einstaklingar yrðu dregnir til ábyrgðar og dæmdir. Sama þyrfti að vera uppi á teningnum í Írak. Þannig gætu réttarhöldin orðið holl og lærdómsrík áminning til fólks um allan heim.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV