Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vill reka alla múslima frá Danmörku

Mynd: YouTube / YouTube
Rasmus Paludan er dæmdur eltihrellir og að margra mati hreinn og klár fasisti. Hann vill banna íslamstrú og reka alla innflytjendur úr landi. Kannanir sýna að nýr flokkur hans fær fimm þingmenn í kosningunum í Danmörku. Paludan er leiðtogi annars af tveimur nýjum flokkum sem eru hægra megin við Danska þjóðarflokkinn sem tapar stórt á kostnað þeirra.

Kannanir benda til þess að Metta Frederiksen, formaður Jafnaðarmanna, taki við sem forsætisráðherra af Lars Løkke Rasmussen, formanni Venstre, eftir þingkosniningarnar í Danmörku 5. júní. Í Danaveldi er talað um bláu blokkina til hægri og rauðu blokkina til vinstri. Jafnaðarmenn undir forystu Mette Frederiksen verða langstærstir á þingi miðað við kannanir með 53 þingmenn, bæta við sig fimm þingsætum frá kosningunum 2015.

Auk Jafnaðarmanna í rauðu blokkinni eru yfirleitt taldir Róttæki vinstriflokkurinn sem sumir segja reyndar hvorki róttækan né til vinstri, Einingarlistinn, umhverisflokkurinn Alternatív og Sósíalíski þjóðarflokkurinn. Saman mælast þessir flokkar með 101 þingsæti af þeim 174 sem koma frá Danmörku eða vel rúman meirihluta. Misjafnt er þó hvernig Alternative er flokkaður en það breytir ekki heildarmyndinni. Að auki koma fjórir þingmenn frá Færeyjum og Grænlandi sem yfirleitt skiptast jafnt á bláu og rauðu blokkina.

epa07585281 Head of The Social Democrats, Mette Frederiksen, (R), and Prime Minister and head of The Liberal Party, Lars Loekke Rasmussen, (L), before a television debate at TV 2 in Odense, Denmark 19 May 2019. People in Denmark are going to vote in a general election on 05 June 2019.  EPA-EFE/Mads Claus Rasmussen  DENMARK OUT
Lars Løkke Rasmussen og Mette Fredriksen. Mynd: EPA-EFE - Ritzau Scanpix
Lars Løkke Rasmussen og Metta Frederiksen

Enginn skildi þó afskrifa forsætisráðherrann Lars Løkke Rasmussen og leiðtoga bláu blokkarinnar. Hann er gamall refur í stjórnmálum. Í nýútkominni viðtalsbók segist hann vel geta hugsað sér að mynda ríkisstjórn með Jafnaðarmönnum. Fyrir utan samstarf flokkanna á stríðsárunum hafa þeir aðeins einu sinni verið saman í ríkisstjórn, í rúmt ár undir stjórn Anker Jørgensens í lok áttunda áratugarins. Metta Frederiksen, leiðtogi Jafnaðarmanna gefur reyndar lítið fyrir þessar hugmyndir og fyrstu kannanir benda til þess að þriðjungur þjóðarinnar hugnist þessi hugmynd vel en rúmur þriðjungur ekki. Stóru tíðindin á hægri vængnum eru þó fylgishrun Danska þjóðarflokksins sem löngum hefur verið talinn lengst til hægri í dönskum stjórnmálum en ekki lengur. Fylgið hrynur úr rúmu tuttugu og einu prósenti frá kosningasigrinum 2015 niður í rúm tíu prósent í könnunum nú. Samkvæmt því færi þingflokkurinn úr 37 niður í 19 þingmenn. Hægra megin við Danska þjóðarflokkinn hafa sprottið fram tveir flokkar, Nýi borgaraflokkurinn og Hörð stefna. Báðir flokkarnir eru mjög harðir í innflytjendamálum, mælast hvor um sig með um tvö og hálft prósent og fengju því fimm þingmenn hvor flokkur. 

Endurhæfingabúðir múslima á Grænlandi

Rasmus Paludan er stofnandi og leiðtogi Stram kurs eða Harðrar stefnu. Hann var áður í Nýja borgaraflokknum og frambjóðandi þess flokks til bæjarstjórnar í Kaupmannahöfn 2017 en var rekinn fyrir róttækar skoðanir sínar og ummæli. Hafði meðal annars sagt að blóð myndi flæða um götur landsins og blóð hinna útlensku fjenda myndi fylla holræsin en í holræsunum ættu þeir einmitt heima. Nýi flokkur hans Stram kurs eða Hörð stefna er vissulega með harða stefnu í innflytjendamálum. Rasmus Paludan vill reka alla sanntrúaða múslima úr landi. Í Danmörku búa innan við sex milljónir og samkvæmt Wikipediu eru múslimar rúmlega fimm prósent þjóðarinnar eða um þrjú hundruð þúsund. Rasmus Paludan telur þá fleiri og segir þörf á að reka allt að fimm hundruð til sjö hundruð þúsund múslima úr landi. Rasmus Paludan segist gera sér grein fyrir að þetta verði ekki gert á einu bretti, fyrst verði þeir sem brotið hafa lög sendir úr landi en á endanum verði öllum sanntrúuðum múslimum vísað úr landi. Þeir sem ekki fari sjálfviljugir af landi brott verði sendir til norðaustur Grænlands í einhvers konar endurhæfingarbúðir. Grænland er jú hluti af Danmörku og þar er náttúran fögur.

Ögrar múslimum og brennir Kóraninn

Rasmus Paludan vill í stuttu máli banna íslam í Danmörku. Hann er þekktur fyrir uppákomur sínar og mótmæli sem iðulega eru í hverfum þar sem múslimar eru fjölmennir. Þar fer hann hörðum orðum um innflytjendur og múslima, ögrar þeim á alla lund með svæsnum yfirlýsingum og hefur jafnvel brennt helgasta rit þeirra Kóraninn. Oft leiðir þetta til uppþota og óeirða sem enn auka á athyglina og leiðir jafnvel til fylgisaukningar flokksins. Kjörorð flokksins er að skapa sem mesta hamingju fyrir sem flesta Dani. Stóra málið er að banna íslam og í stað þess að hleypa innflytjendum inn í landið á að henda þeim sem fyrir eru úr landi. Þeir sem kasta trúnni, eiga þó möguleika á að vera áfram í Danmörku. 

Dæmdur óvenju svæsinn eltihrellir

Árið 2013 var Paludan dæmdur í fimm ára nálgunarbann og bannað að hafa nokkur samskipti við tuttugu og fjögurra ára pilt sem hann hafði kynnst stuttlega í latínunámi. Þetta er hámarksrefsing fyrir slíkt athæfi en dugði ekki til því Paludan hélt áfram að ofsækja drenginn. Árum saman elti hann drenginn, áreitti hann, fjölskyldu hans og vini á alla lund. Hann drekkti honum í símtölum og sms, allt að fjörutíu sinnum á dag. Samkvæmt lögregluskýrslum virðast þessar ofsóknir hafa verið óvenjulangvarandi og svæsnar.

Hverfandi stuðningur meðal kvenna

Rasmus Paludan og flokkur hans Stram kurs mælast með tveggja komma sex prósenta fylgi og fær samkvæmt því fimm þingmenn í kosningunum 5. júní. Hann er áberandi á samfélagsmiðlum og fylgið er mest meðal unga fólksins. Reyndar fyrst og fremst ungra karlmanna því stuðningur flokksins meðal kvenna er hverfandi.

palmij's picture
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV