Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill rannsaka meinta stríðsglæpi Ísraels

21.12.2019 - 03:54
Smoke rises from an explosion caused by an Israeli airstrike in Gaza City, Saturday, Oct. 27, 2018. Israeli aircraft struck several militant sites across the Gaza Strip early Saturday shortly after militants fired rockets into southern Israel, the Israeli
 Mynd: AP
Yfirsaksóknari Alþjóðaglæpadómstólsins, ICC, vill opna rannsókn á meintum stríðsglæpum Ísraels í Palestínu. Fatou Bensouda segir stríðsglæpi hafa verið, og enn vera framda á Vesturbakkanum, Austur-Jerúsalem og á Gaza-ströndinni. Dómstóllinn hefur verið með málið til skoðunar síðan Palestínumenn lögðu það fram árið 2015.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, segir dómstólinn ekki hafa lögsögu í landinu. Ísrael á ekki aðild að honum. Hann segir ákvörðun Bensouda gera dómstólinn að pólitísku vopni til að afnema sjálfstæði Ísraelsríkis.

Bensouda hefur óskað eftir því að ICC geri henni grein fyrir þeim umdæmum sem dómstóllinn hefur lögsögu yfir. Hún kveðst hafa aflað nægra gagna til þess að opna rannsókn og segir fátt benda til annars en að rannsókn eigi eftir að þjóna hagsmunum réttlætis. Ekki er ljóst hvenær dómstóllinn sendir henni svar, en Bensouda kveðst hafa beðið dómara um skjót svör svo hún geti tekið næstu skref.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti algjörri andstöðu Bandaríkjanna við rannsókn ICC á meintum stríðsglæpum Ísraelsmanna. Hann segir Bandaríkin andmæla þessum, sem og öðrum aðgerðum þar sem Ísrael fær ósanngjarna meðferð. Bandaríkin telji Palestínu ekki til sjálfstæðra ríkja, og því geti það ekki átt aðild að dómstólnum, eða öðrum alþjóðastofnunum.