Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vill mýkri áherslur á Bessastaði

Mynd: Halla Tómasdóttir / Halla Tómasdóttir
„Ég myndi einungis vilja sjá þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar vandaðrar umræðu sem tryggir að Íslendingar geti kynnt sér málin frá öllum hliðum áður en gengið er til kjörklefa. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að Bessastaðir og forseti geti beitt sér fyrir að slíkt samtal eigi sér stað,“ segir Halla Tómasdóttir, forsetaframbjóðandi. Hún telur það kost fyrir forseta að vera ekki af stjórnmálasviðinu, reynsla hennar úr viðskiptalífinu komi til með að nýtast vel í embættinu.

Hver er Halla Tómasdóttir?

Halla Tómasdóttir er 48 ára gömul, hún er fædd í Reykjavík en uppalin í Kópavogi og býr þar með eiginmanni sínum, Birni Skúlasyni, og tveimur börnum. Halla er menntaður rekstrarhagfræðingur en frumkvöðull í grunninn, að eigin sögn. Hún hefur undanfarin ár starfað sem fyrirlesari á alþjóðavettvangi. Árin þar á undan gegndi hún stöðu lektors við Háskólann í Reykjavík og var stjórnandi hjá íslenskum og bandarískum fyrirtækjum, svo sem; Pepsi, Mars, Íslenska útvarpsfélaginu og Viðskiptaráði Íslands. Árin 1999 til 2003 leiddi hún verkefnið Auður í krafti kvenna og árið 2007 stofnaði hún fjármálafyrirtækið Auði Capital. Þá kvar hún ein af stofnendum Mauraþúfunnar sem hrinti í framkvæmd Þjóðfundinum árið 2009 en þá kom slembiúrtak þjóðarinnar saman til að ræða grunngildi Íslendinga og framtíðarsýn. 

Vill virkja konur til áhrifa

Halla vill að Bessastaðir verði vettvangur uppbyggilegrar umræðu um stóru málin, grunngildi þjóðarinnar, langtímahagsmuni og það hvernig læra megi af fortíðinni. Hún vill virkja konur til áhrifa, styðja við menntakerfið, sjá fleiri frumkvöðla að störfum og stuðla að því að Ísland verði framtíðarheimili unga fólksins. 

Viðraði áhyggjur í aðdraganda hrunsins

Tengsl Höllu við viðskiptalífið hafa verið talsvert í umræðunni eftir að hún tilkynnti um framboð sitt og hún svarar sjálf ýmsum spurningum varðandi þau á vefsíðu sinni. Hún gegndi embætti framkvæmdastjóra VIðskiptaráðs Íslands á árunum 2006 til 2007 og sat í stjórn Kauphallar Íslands og Seðlabankans. Aðspurð hvort hún telji sig bera einhverja ábyrgð á því hvernig fór fyrir íslenska efnahagskerfinu segir hún: 

„Við öll sem höfum starfað á vettvangi viðskipta og fjármála hljótum í einhverjum skilningi að bera ábyrgð en ég held að það sem skipti mestu máli sé sá lærdómur sem við drögum af þessu,“

Hún segist ítrekað hafa viðrað áhyggjur sínar af ráðandi gildum í viðskiptalífinu á meðan hún gegndi embættinu en sýn hennar hafi ekki hlotið hljómgrunn. 

„Ég hef leyft mér stundum að nota eftirfarandi líkingu: Ef þú stendur upp í partíi sem er á fullri ferð, á miðnætti, og segir eigum við að hætta að drekka núna því annars verðum við svo þunn á morgun. Þá er enginn sem vill hafa þig í partíinu lengur. Ég átti mörg samtöl um þetta bæði við forystufólk á vettvangi stjórnmála og viðskipta. Ég tók á endanum ákvörðun, þegar mér fannst erfitt að eiga þessa umræðu, um að standa með mínum gildum og innsæi og stofna Auði Capital á grunni annarra gilda.“ 

Hafnar hetjuhugmyndum

Halla hafnar hugmyndum um að einungis einn eða tveir frambjóðendur valdi forsetaembættinu.

„Ég vil vísa á ráðstefnu sem var í Háskóla Íslands í morgun, þar ræddu prófessorar um að það væri dálítið verið að teikna upp hlutverk forseta á þann máta að hann væri einhvers konar hetja sem stæði styrkum fótum sama hvað gengi á, þetta eru að mínu mati gamaldags hugmyndir um hvernig forseta okkur vantar. Það er þessi nálgun að það sé bara einhver einn eða tveir sem valdi þessu embætti. Ég er þeirrar skoðunar að okkur vanti mýkri áherslur á Bessastaði, okkur vanti fyrirliða fyrir þau gildi sem komu út úr Þjóðfundinum 2009, sem ég stóð að áfram öðrum. Þar kom fram skýr sýn um að Íslendingar vilji búa í samfélagi þar sem heiðarleiki, jafnrétti, réttlæti og virðing ráða för en þetta eru ekki beint gildin sem við sjáum í íslensku samfélagi, það nægir að benda á nýafstaðna atburði og Panama-skjölin.“

Árlegir þjóðfundir? 

Halla sér fyrir sér að hægt væri að boða til umræðna á Bessastöðum um stór mál sem varða langtímahagsmuni okkar allra. 

„Að Bessastaðir standi fyrir umræðu um stór mál sem varða langtímahagsmuni okkar allra og séu þannig aðili sem tryggir að í orðræðu um það fái ólík sjónarmið að njóta sín og fái þjóðin að taka þátt samanber Þjóðfund 2009. Ég myndi gjarnan vilja sjá Bessastaði taka árlega fyrir mismunandi viðfangsefni. Þau eru mörg viðfangsefnin í samfélaginu í dag.“ 

Þjóðaratkvæðagreiðsla í kjölfar vandaðrar umræðu

Halla er tilbúin til að beita málskotsréttinum við ákveðnar aðstæður. 

„Ég vil virða þingræðið en ég óttast ekki sem forseti, ef stjórnarskrárbreytingar tefjast frekar, að beita 26. grein stjórnarskrárinnar. Ég tel hins vegar að ef einhver forseti ætlar að beita sér fyrir því eigi það að vera á grunni starfsreglna og gagnsæi eigi að vera um hvernig og hvenær slíkt yrði virkjað. Ég myndi einungis vilja sjá þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar vandaðrar umræðu sem tryggir að Íslendingar geti kynnt sér málin frá öllum hliðum áður en gengið er til kjörklefa.“

Hún segist ekki sjá neitt því til fyrirstöðu að Bessastaðir og forseti geti beitt sér fyrir því að slíkt samtal eigi sér stað. 

Hlýða má á viðtalið við Höllu í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.