Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vill meira fé vegna stórra úttekta á ríkisstofnunum

06.12.2019 - 07:45
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Kostnaður Ríkisendurskoðunar við úttektir á ríkisstofnunum var margfalt hærri í ár en síðustu ár. Úttektirnar hafa meðal annars snúið að Íslandspósti, Ríkislögreglustjóra, Tryggingastofnun og Ríkisútvarpinu. Þetta kemur fram í minnisblaði sem Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi sendi fjárlaganefnd Alþingis. Embættið hefur farið fram á aukafjárveitingu vegna starfsemi ársins og fjárlaganefnd fór fram á frekari rökstuðning.

Í minnisblaðinu kemur fram að kostnaður við úttektir stofnunarinnar í ár hefur numið rúmum 72 milljónum króna. Til samanburðar kostuðu úttektir síðasta árs tæpar 24 milljónir og úttektir ársins 2017 kostuðu fimmtán milljónir.

Alls fóru rúmlega 10.300 klukkutímar í úttektir í ár, rúmlega 3.600 í fyrra og tæplega 2.400 í hittifyrra.

Starfsmenn stofnunarinnar lögðu nærri tvö þúsund tíma vinnu í úttekt á Tryggingastofnun og hátt í fimmtán hundruð tíma í úttekt á Íslandspósti. Úttekt á Fiskistofu stóð yfir í tæpar tólf hundruð klukkustundir og úttekt á Ríkislögreglustjóra tók rúmlega þúsund klukkustundir. 

Úttekt á Kvikmyndasjóði, RÚV og áætlanagerð opinberra aðila stóð yfir í tæpar þúsund klukkustundir í hverju tilfelli í ár.

Sumar úttektirnar hafa þó staðið yfir lengur en aðrar. Þannig hafa samtals tæplega 2.000 tímar farið í úttekt á Vatnajökulsþjóðgarði í ár og í fyrra, tæplega 1.300 í Fiskistofu, tæplega 1.200 í RÚV og álíka mikið í Kvikmyndasjóð.

Þó er til þess að líta að úttektum Ríkisendurskoðunar á Tryggingastofnun og Ríkislögreglustjóra er ekki lokið. Skýrslurnar um Fiskistofu, Íslandspóst, RÚV og endurgreiðslukerfi kvikmynda eru komnar út.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV