Vill meira fé til að bæta viðbragð í Öræfum

09.06.2019 - 20:02
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Björgunarsveitin í Öræfum þarf alltaf að bíða í um klukkutíma eftir sjúkrabíl. Aðalvarðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi kallar eftir auknu fjármagni til að bæta viðbragð.

Á síðustu tveimur árum hefur björgunarsveitin Kári í Öræfum fengið 33 útköll í háum forgangi, önnur útköll voru 23 en af þeim voru einungis 5 útköll í lægsta forgangi.

„Það eru svona tíu til fimmtán manns sem koma í útköll. Svo þurfum við að bíða eftir sjúkrabíl í tæpan klukkutíma hvort sem hann kemur frá Kirkjubæjarklaustri eða Hornafirði. Þetta er alltaf svipuð bið eftir sjúkrabíl og lækni,“ segir Gunnar Sigurjónsson varaformaður björgunarsveitarinnar Kára í Öræfum.

Eftir rútuslys við Hof í Öræfum um miðjan maí ásamt banaslysum við Núpsvötn og Eldhraun síðustu tvo vetur hafa öryggismál í Öræfum komist í hámæli. Fimm létust í þessum þremur slysum og tugir slösuðust, sumir alvarlega. Það er enginn læknir eða hjúkrunarfræðingur í Öræfum en næstu þéttbýli eru í um 100 kílómetra fjarlægð.

Kalla eftir auknu fjármagni til að stytta viðbragð

Lögregla hefur reynt að bregðast við með því að auka eftirlit á svæðinu. „Eitt af því sem við myndum gjarnan vilja sjá er að stytta viðbragð. Það tekur ákveðinn tíma að komast á vettvang, eins og dæmi sanna. Þannig við vildum gjarnan fá að sjá aukið fjármagn hingað,“ segir Jón Garðar Bjarnason, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi.

Það hefur verið kallað eftir aðstöðu fyrir heilbrigðismenntaða í Öræfum og auka þannig viðveru þeirra. Jón Garðar segir að það þurfi að ganga ákveðið til verks að bæta vegasamgöngur til að fækka slysum.

„Við þurfum að hugsa um heildarmyndina og bæta vegsamgöngur, auka eftirlitið og hugsa stórt fram í tímann. Hitt er annað mál að í þessari aukningu sem hér hefur orðið á ökutækjum. Þetta er bara nýr veruleiki og það kerfi sem þjónar okkur nú var ekki byggt fyrir þetta, það er bara þannig,“ bætir Jón Garðar við.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi