Vill ljúka viðræðum við PCC fyrir mánaðarmót

20.05.2019 - 08:55
Innlent · Kjaramál · Norðurland · PCC
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Frá áramótum hafa staðið yfir samningar um nýjan sérkjarasamning fyrir starfsmenn í kisilveri PCC á Bakka. Formaður Framsýnar á Húsavík segir mikilvægt að ná samningum fyrir mánaðarmót, það megi ekki dragast fram á sumar. Markmiðið sé að laun í verksmiðju PCC verði sambærileg við það sem gerist í álverum og öðrum verksmiðjum.

Sérkjarasamningur fyrir verksmiðju PCC, sem tók gildi í mars í fyrra, rann út um áramót. Síðan þá hafa staðið yfir viðræður um nýjan og endurbættan samning.

Vonar að það þurfi ekki að grípa til aðgerða

„Ég hefði viljað sjá það að við kláruðum þessar viðræður núna í þessum mánuði. Því annars þurfum við kannski að fara að grípa til annarra aðgerða, sem við vonumst til þess að þurfa ekki. En við viljum bara fara að fá samning,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags. Stefnan sé að laun í verksmiðju PCC hækki til samræmis við laun í öðrum verksmiðjum, tekið verði upp bónuskerfi, það sé rætt um öryggismál, veikindaréttur verði aukinn og fleira.

Launin hjá PCC ekki sambærileg við aðrar verksmiðjur

Og þrátt fyrir að laun í verksmiðjunni á Bakka séu ágæt miðað við það sem gerist á almennum vinnumarkaði segir Aðalsteinn þau ekki sambærileg við laun í álverum og sambærilegum verksmiðjum. „Það hefur orðið ákveðið launaskrið í verksmiðjum á Íslandi, álverksmiðjum sem hafa verið að borga ágætis laun og mun hærri en almennt er. Og þangað stefnum við. Og við erum lægri í dag en það þarf ekkert að vera neitt óvenjulegt vegna þess að verksmiðjan startaði bara á síðasta ári.“ 

Getur tekið tíma að byggja upp betri kjör

Og það geti tíma að byggja upp sambærileg kjör og í eldri og rótgrónari verksmiðjum, jafnvel einhver ár. „Það bara á eftir að koma í ljós. En það er okkar vilji og okkar krafa að það verði sem fyrst.“

  
 

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi