Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill láta rannsaka FaceApp

18.07.2019 - 06:54
FaceApp is displayed on an iPhone Wednesday, July 17, 2019, in New York. The popular app is under fire for privacy concerns. (AP Photo/Jenny Kane)
 Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Síðustu daga hafa fjölmargir notendur samfélagsmiðla nýtt sér smáforritið FaceApp og deilt myndum af sér þar sem þeir líta út fyrir að hafa elst um nokkra áratugi. Leiðtogi Demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings vill að bandaríska alríkislögreglan taki smáforritið til rannsóknar.

Chuck Schumer segir í bréfi sem hann sendi til alríkislögreglunnar og alríkisviðskiptastofnunar Bandaríkjanna að hann hafi áhyggjur af því að FaceApp gæti „ógnað öryggi og einkalífi milljóna Bandaríkjamanna.“ AP fréttastofan greinir frá þessu. 

Schumer biðlar til stofnananna að meta stöðuna og segir að það væri virkilega slæmt ef óvinveittir, erlendir aðilar gætu nýtt sér viðkvæmar persónuupplýsingar á netinu og notað þær til að ráðast gegn Bandaríkjunum.  

BBC greinir frá því að fyrirtækið Wireless Lab, sem er staðsett í Sankti Pétursborg í Rússlandi, segi að þeir geymi hvorki myndir né upplýsingar um notendur heldur noti fyrirtækið eingöngu þær myndir sem notendur kjósa að hlaða inn í forritið og umbreyta. 

Forrit á borð við FaceApp hafa sætt mikilli gagnrýni, meðal annars vegna þess að talið er að forritið sé nýtt til að búa til gagnagrunn úr myndum notenda í þeim tilgangi að þróa andlitsgreiningar-algrím.

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV