Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill láta lækka skatta vistvænna fyrirtækja

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Hansson
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, viðrar þá hugmynd á Twitter að lækka fasteignaskatta á fyrirtæki sem eru með lítið eða ekkert sótspor. Með því sé hægt að hvetja fyrirtæki til þess að koma starfsemi sinni í umhverfisvænna horf. „Þetta var svona hvatvís hugmynd hjá mér sem er á byrjunarstigi í kollinum á mér.“

„Borgir eru mikið hreyfiafl og í þeim gerast hlutirnir hratt. Því verðum við að skoða allar leiðir til þess að ná árangri í baráttunni við loftslagsbreytingar af mannavöldum,“ segir Líf í samtali við fréttastofu. 

Greiða þarf götuna fyrir umhverfisvæna starfsemi

Við fyrstu sýn þurfi lagabreytingu til þess að sveitarfélög geti gefið afslátt af fasteignasköttum með þessum hætti. Sveitarfélög hafi þegar heimildir til að veita afslátt af sköttum og gjöldum í ýmsum tilfellum, svo sem þar sem félagsstarf og -samtök eiga í hlut. 

Það sé einnig löggjafans að kanna hvernig hægt sé að hvetja til umhverfisvænnar starfsemi. Grænir skattar séu hluti af því, líkt og þegar er verið að gera með urðunarskatti, segir hún. 

Þurfi einnig að skoða byggingariðnað

Uppbygging, niðurrif, innflutningur á byggingarefni og annað sem tengist byggingariðnaði getur haft mikil áhrif á umhverfið, segir Líf.

Næsta stóra viðfangsefni borgarinnar sé því að finna út úr því hvernig hægt sé að byggja á vistvænan og umhverfisvænan hátt, án þess að það skili sér í hærra verði. Mögulega komi til greina að veita verktökum, sem byggja á umhverfisvænan hátt, afslátt af gjöldum og sköttum. 

„Saman þá getum við þetta“

„Ég held að við þurfum að búa til góða hvata fyrir fólk og fyrirtæki og greiða götuna fyrir því að allir geti tekist á við loftslagsvána, af því að saman þá getum við þetta.“ 

Þau hjá borginni séu að skoða allt sem þau geti gert í loftslagsmálum og hvernig hægt sé að auðvelda fólki og fyrirtækjum að breyta lífsháttum sínum og viðhorfi.

Líf segir að viðhorfsbreytingar í pólitík séu alltaf erfiðastar og mæti oft mótspyrnu. Mikilvægt sé að stjórnvöld séu í stöðugu samtali við fólkið í landinu og borginni því taki ekki allir höndum saman, breytist ekkert.