Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vill henda orðinu smitskömm úr tungumálinu

25.03.2020 - 14:30
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Alma Möller landlæknir bað fólk um að standa saman og ekki láta veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómnum komast upp á milli sín. Hún lagði út af orðinu smitskömm og kom því skýrt á framfæri að það orði ætti ekki heima í tungumálinu. „Ég legg til að við hendum því orði. Það getur auðvitað enginn gert að því að hann smitast eða smitar aðra, að því gefnu auðvitað að fólk hafi sinnt reglum varðandi einangrun og sóttkví. Mér finnst við ættum að hætta að agnúast út í aðra vegna þessa.“

Alma kvatti landsmenn til að snúa bökum saman og láta veiruna ekki komast upp á milli sín, á upplýsingafundi almannavarna og landlæknisembættisins. Undanfarna daga hefur fólk lýst smitskömm. Meðal annars lýsti ein þeirra sem smituðust í stórum hópi skíðagöngfólks áhyggjum af því að sleggjudómar og neikvæðar athugasemdir gætu komið í veg fyrir að smitaðir deildu reynslu sinni. Kona á Hvammstanga sem smitaðist sagðist hafa fundið fyrir skömm eftir að hafa farið út á meðal fólks án þess að vita að hún væri smituð.

Landlæknir þakkaði jafnframt þeim sem verið hafa heima af hinum ýmsu ástæðum. Hún sagði að það tæki tíma að læra á slíkt fyrirkomulag og venjast því. Alma hvatti fólk til að gæta vel að heilsu og svefni, ekki síst vegna þess að börn eru næm fyrir umhverfi sínu. „Ég ætla líka að hrósa þessu gluggabangsaverkefni.“

Nú er unnið að hönnun forrits sem fólk verður hvatt til að setja upp í síma sína meðan á faraldrinum stendur. Þá verður hægt að rekja ferðir fólks og kanna hverja það hefur hitt ef það greinist með smit. Alma lagði áherslu á að gætt væri að persónuverndarsjónarmiðum. „Þetta app mun verða á forræði sóttvarnalæknis og landlæknis,” sagði Alma. Hún sagði að fólk þyrfti bæði að veita samþykki þegar það setti upp forritið og aftur fyrir því að gögnin yrðu notuð ef viðkomandi greindist með smit. Landlæknir sagðist ekki efast um að fólk myndi vilja liðka fyrir smitrakningu svo að hægt væri að finna aðra sem hefðu hugsanlega smitast.

Alma sagði að hönnun forritsins væri á lokastigi og síðan færi það í prófun. Vonir standa til að forritið verði tekið í notkun í næstu viku, að því gefnu að öll leyfi fáist.

Fréttin var uppfærð 14:39.