Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill halda fast í lýðræðið á tímum loftslagsbreytinga

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV

Vill halda fast í lýðræðið á tímum loftslagsbreytinga

10.11.2019 - 15:52

Höfundar

Loftslagsváin er stærsta áskorun samtímans og stærsta viðfangsefni stjórnmálanna, að mati forsætisráðherra. Katrín Jakobsdóttir ræddi aðgerðir í loftslagsmálum, ábyrgð stjórnvalda og mikilvægi loftslagsréttlætis í Loftslagsþerapíunni. Hún segir margar hindranir í veginum, efnahagskerfið byggi á hagvexti og neyslu og það sé meira en að segja það að breyta venjum sínum.

Katrín var meðal viðmælenda í fimmta þætti Loftslagsþerapíunnar þar sem fjallað var um lausnir og pólitík. Hlýða má á viðtalið í heild í spilaranum hér fyrir ofan.

Mun hafa áhrif á lifnaðarhætti allra

„Mér finnst þetta vera stærsta áskorun samtímans og stærsta viðfangsefni stjórnmálanna af því það er flókið, af því það kallar á svo mikla samvinnu bæði milli ólíkra ríkja og landa en líka innan ríkja og landa. Það er flókið vegna þess að við getum þetta ekki leyst þetta með einhverju einu, það þarf miklu fjölþættari aðgerðir. Þetta er stórt vegna þess að þetta mun hafa áhrif á okkur öll sem búum á þessari jörð, á lifnaðarhætti okkar allra. Áhrifin verða ólík eftir því hvar við búum, hver efnahagsleg staða okkar er en þetta mun hafa áhrif á alla jarðarbúa og við erum þegar farin að sjá afleiðingar sem vísindamenn hafa verið að vara okkur við árum saman að kunni að vera á leiðinni,“ segir Katrín. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Samsett mynd
Loftslagsbreytingar hafa áhrif á alla en ekki sömu áhrif.

Ekki stjórnmálamaður sem talar mikið um tilfinningar sínar

Hvernig líður henni persónulega gagnvart þessari vá, tekur hún hana inn á sig?  „Nú kannski er ég bara stjórnmálamaður þeirrar gerðar að ég tala ekki mikið um mína líðan en ég skynja það hins vegar að þetta liggur þungt á hjarta barnanna minna og ungs fólks sem ég hitti,  þetta er það sem þau tala mest um þegar ég hitti þau og mér finnst frábært að börn  og unglingar séu að taka forystu í umræðunni um þessi mál því þau líta á þetta mál sem sitt mál, svo sannarlega. Þau vita alveg að þegar þau vaxa úr grasi og taka við stjórnartaumunum í samfélaginu þá skiptir svo miklu máli hvað við gerum núna. Mér finnst það sýna, því oft sjá börn hlutina í svo skýru ljósi og þau átta sig svo sannarlega á því að þetta er brýnasta málið.“

Rætt við eldhúsborðið

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Felix Bjarnason
Allsherjarverkfall fyrir loftslagið.

Hún segir mikið rætt heima hjá sér, við eldhúsborðið og það sé vandasamt. „Það er talað um að mörgum börnum líði illa yfir þessu en ég held við eigum ekki að nálgast málið þannig, þrátt fyrir alvarleikann, heldur að hugsa um hvað við getum gert. Við höfum staðið frammi fyrir ógnum og vám áður, kjarnorkuvánni, sem að vísu er aftur að rísa í heiminum, um tíma náðum við góðum tökum á því að vinna saman að afvopnun. Með samstilltu átaki þjóða og markvissum breytingum var hægt að stíga inn í ósonvandann. Ég hef trú á því að við getum brugðist við en það þarf mikla samvinnu og samstöðu.“  

Af hverju lækar umhverfisráðherra mótmælahreyfingu?

Valdamikið fólk í heimi stjórnmálanna talar um að Greta Thunberg og unga fólkið sem tekur þátt í skólaverkföllunum veiti von . Umhverfisráðherra lætur sér líka við Extinction Rebellion Ísland á Facebook. Er ekki svolítið þversagnakennt þegar þeir sem hafa völdin eru að hvetja eða binda vonir sínar við þá sem eru að þrýsta á þá og biðja þá að ráðast í aðgerðir?

epa07914350 Environmental activist Greta Thunberg of Sweden speaks at a Fridays for Future environmental protest at the Denver Civic Center in Denver, Colorado, USA, 11 October 2019.  EPA-EFE/Bob Pearson
 Mynd: Bob Pearson - RÚV
Thunberg veitir mörgu valdamiklu fólki von. Hvers vegna?
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Ingvarsson - RÚV
Gjörningur Extinction Rebellion fyrir utan Útvarpshúsið.

„Thunberg er auðvitað orðin táknmynd fyrir miklu stærri hreyfingu, hún hefur auðvitað haft ótrúleg áhrif og að einhverju leyti segir það okkur að alla langar svolítið að vera hluti af þeirri hreyfingu. Fyrir mína parta vil ég segja að mér finnst skipta máli þegar við fáum svona sterk viðbrögð frá ungu fólki á Íslandi, það á að skipta stjórnmálamenn máli, við eigum að leggja við eyrun þegar við fáum svona sterk skilaboð. Þetta er þeirra mál þannig að ég lít nú á Grétu sem táknmynd þessarar hreyfingar ungs fólks sem er mun víðfeðmari. Við eigum að hlusta á ungt fólk hér á Íslandi sem segir okkur sömu hluti.“

Þú segir þeirra mál, þau eiga ekki að takast á við vandann, það eruð þið, ekki satt? „Jú, þau eru að þrýsta á okkur og það getur verið gott fyrir stjórnmálamenn að fá svona skýran þrýsting,“ segir Katrín. 

Almenningur má hjálpa til en á ekki að redda málunum

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Stjórnarráðið við Lækjargötu.

Börn og ungmenni hafa áhyggjur og finnst jafnvel mikil ábyrgð hvíla á sínum herðum. Hvernig er að standa í brúnni á þessum tímum? Vera valdamesti stjórnmálamaður á Íslandi?  „Þetta hvílir vissulega á mínum herðum og okkar allra sem getum kallað okkur stjórnvöld á Íslandi. Það sem ég hef lagt áherslu á í umræðunni um loftslagsmálin, því það er mjög mikið lagt upp úr því hvað hver og einn geti gert og maður sér að fólk nánast upplifir skömm yfir því að keyra á milli staða eða eitthvað slíkt. Það er mjög mikilvægt að hver og einn leggi sitt af mörkum en ábyrgðin hlýtur alltaf að vera stjórnvalda, þeirra sem leiða í ríki og sveitarfélögum, atvinnulífsins og forystufólks í atvinnulífi, þar með talið verkalýðshreyfingar. Ég segi: Við skulum hafa það alveg skýrt að það erum við sem erum að draga vagninn og svo skiptir það miklu máli að hver og einn leggi sitt lóð á vogarskálarnar. Við getum ekki lagt byrðarnar á hvern og einn og sagt þið verðið að redda þessu.“

Umhugað um loftslagsréttlæti

Hún segir mikilvægt að aðgerðirnar sem stjórnvöld velja að grípa til feli í sér félagslegt réttlæti, það sé ekki bara hægt að skattleggja þá efnaminnstu í samfélaginu til að mæta loftslagsvandanum. „Við þurfum að ráðast í þessar aðgerðir samhliða því að tryggja réttlæti og jöfnuð og það verður flókin umræða sem við höfum séð brjótast út í löndunum í kringum okkur.“

A demonstrator waves a French flag on the Champs-Elysees avenue Saturday, Dec. 8, 2018 in Paris. Crowds of yellow-vested protesters angry at President Emmanuel Macron and France's high taxes tried to converge on the presidential palace Saturday, some scuffling with police firing tear gas, amid exceptional security measures aimed at preventing a repeat of last week's rioting. (AP Photo/Rafael Yaghobzadeh)
 Mynd: AP
Frá mótmælum Gulvestunga.

Katrín vísar þarna meðal annars í mótmæli Gulvestunga í Frakklandi sem brutust út eftir að ríkisstjórn Emmanuels Macrons hækkaði álögur á eldsneyti. „Þess vegna þurfum við að hafa í huga að stuðla samhliða að aðgerðum sem stuðla að félagslegum stöðugleika, þessi vídd réttlætis finnst mér mjög mikilvæg í allri umræðu um loftslagsmál því það er alveg á hreinu að bæði afleiðingar loftslagsvárinnar og sömuleiðis aðgerðanna gegn henni geta birst með mjög mismunandi hætti fyrir ólíka hópa. Þar þurfum við stjórnvöld að vera mjög meðvituð.“

Aldrei meira í deiglunni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í ár var stofnaður samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs í loftslagsmálum.

Katrín segir loftslagsvandann meira í deiglunni en nokkru sinni, ólíkir stjórnmálaflokkar séu farnir að taka málið upp og atvinnulífið taki aukinn þátt því fyrirtæki átti sig á því að loftslagsbreytingar séu risastór breyta fyrir þeirra framtíðarhag. 

Er lýðræðið fyrirstaða? 

Það liggur fyrir að það þarf að draga stórkostlega úr losun á heimsvísu, minnka hana um um það bil helming á næstu ellefu árum. Vandinn er einfaldur en lausnin er kannski flóknari og aðgerðir verða óhjákvæmilegar pólitískar. Þó umræðan sé að aukast er pólaríseringin líka orðin meiri, er lýðræðið kannski fyrirstaða þegar kemur að því að takast nógu hratt á við vandann og skera losun niður um helming á næstu ellefu árum? Á að fara þetta í litlum skrefum og tryggja samstöðu um hvert þeirra? „Það truflar mig alltaf þegar talað er fyrir því að kippa úr sambandi einhverjum lýðræðislegum verkferlum því staðan sé þannig. Almennt held ég að lýðræðið sé svo gríðarlega mikilvægt stjórnunarform að mér finnst að það verði ávallt, við þurfum ávallt að vinna hlutina með þeim hætti. Ég vil líka segja það, að það er alveg rétt að við sjáum aukna jöðrun í þessari umræðu víða um heim, Bandaríkin að draga sig út úr Parísarsamkomulaginu svo dæmi séu tekin þó einstaka ríki þar hafi lagt mikið af mörkum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV

Góð viðbrögð við grænum ívilnunum

Katrín segir lýðræðið ekki þvælast fyrir aðgerðum hér, þvert á móti. „Ég myndi segja að hér á Íslandi eigum við tækifæri til að skapa samstöðu um aðgerðir og mér finnst við vera að fá mikinn stuðning frá almenningi. Ef við tökum skoðanakannanir, hvað fólk er að gera, við kynntum fyrir ári okkar fyrstu aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og síðan hefur fólk valið mjög meðvitað að nýta sér ívilnanir til að fjárfesta í grænum ökutækjum, rafhjólum og öðru slíku. Ég ætla að leyfa mér að segja að í gegnum lýðræðislega ferla höfum við þegar náð árangri en það breytir því ekki að það er gríðarlega mikið verk óunnið.“

Þeir sem tali mest um sterka pólitíkusa hafni skattlagningu

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanns Jónsson - RUV.is
Katrínu hugnast grænir skattar og ívilnanir.

Það er þörf á hröðum aðgerðum. Þurfa stjórnmálamenn í dag að taka erfiðar ákvarðanir og sýna hugrekki eins og stundum er talað um eða myndi slíkt kalla á bakslag? „Þeir stjórnmálamenn sem tala mest um sterka stjórnmálamenn eru sömu stjórnmálamenn og gagnrýna hvað mest þegar stjórnvöld beita valdi sínu til þess að stuðla að þróun í þá átt sem ég tel rétta fyrir samfélagið, þá er ég að tala um græna skatta, grænar ívilnanir sem ríkisstjórnin er að kynna núna, þá ákvörðun okkar að taka fyrir innflutning á bensín og díselbílum frá og með 2030. Við erum þegar búin að kynna hvað stjórnvöld vilja gera til að beina hlutum í rétta átt en það að sjálfsögðu munum við afgreiða með lýðræðislegum hætti, ég hef vantrú á þeim sem trúa á það að einstakir stjórnmálamenn eigi að vera lausnin sem jafnvel fer á svig við reglur og lög samfélagsins og lýðræðislegan vilja, ég held einmitt að það skili bakslagi síðar.“

Mikilvægt að fórna ekki lýðræðinu fyrir skjótan árangur

Við stefnum í ranga átt, að þremur gráðum. Aukið álag vegna alvarlegra loftslagsbreytinga myndi valda auknu álagi á samfélagið. Skiptir kannski meira máli að standa vörð um lýðræðið heldur en að leggja allt að verði núna til að minnka losun og vega þá kannski að öðrum þáttum? „Ég er þar, ég held það skipti meira máli eða meira máli, ég held að hvoru tveggja skipti mjög miklu máli að fara í mjög markvissar aðgerðir og að standa vörð um lýðræðið. Það felur líka í sér að aðgerðirnar þurfi að vera réttlátar í eðli sínu og það er heilmikið útfærsluatriði en við sjáum að grænir skattir hafa haft áhrif á hegðun fólks í nágrannalöndum okkar án þess að draga úr lífsgæðum þess.“

Stjórnvöld þurfa að breyta allri stefnumótun

Það eru hindranir í veginum. Katrín nefnir það hvernig við höfum metið hag þjóða. Við höfum nýtt einfalda mælikvarða vergrar þjóðarframleiðslu en ekki þá fjölbreyttu mælikvarða sem mæla þjóðarhag með öðrum hætti. „Þetta snýst ekki bara um aðgerðir sem beinlínis má kalla loftslagsmál, þetta snýst líka um hvernig við metum samfélög og við hófum í fyrra samstarf við Nýja-Sjáland og Skotland um velsældarhagkerfi þar sem við mælum ekki bara efnahagslegt gengi heldur líka gengi umhverfismála, velsældar- og félagsmála. Þetta snýst um að við stjórnvöld breytum bara allri okkar stefnumótun í takt við loftslagsmarkmið en líka til að tryggja velsældarleg og efnahagsleg markmið. Þetta þrennt verður að fara saman.“

Stundum er talað um að það þurfi að breyta hagkerfinu til að takast á við loftslagsvána. Telur Katrín svo vera? „Við þurfum auðvitað að aðlaga hagkerfið að breyttum tímum, þess vegna nefndi ég mælikvarðana. Ég tel að við ættum að mæla í auknum mæli líðan fólks í samfélaginu og setja mælikvarðana í samhengi við stefnumótun stjórnvalda. Það skiptir svo miklu máli núna á næstu árum þegar við erum að fara í ákveðnar breytingar til að mæta þessari ógn sem að okkur steðjar og laða okkur að þeim breytingum að við setjum allt í samhengi og gerum ekki bara eitthvað umhverfismegin heldur horfum líka á samfélagið og hagkerfið í sömu andrá.“

„Við höfum byggt svo mikið á neyslu“

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Katrín segir það eina hindrunina hvað hagkerfið byggir mikið á neyslu.

Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs stjórnvalda,  talar um að það þyrfti að minnka losun um 18% á ári á heimsvísu til að halda hlýnuninni innan 1,5 gráðu. Ef við yfirfærum það markmið á Ísland. Er ekki alveg viðráðanlegt að minnka losun svo mikið á Íslandi? Hvað kemur í veg fyrir það? „Við höfum auðvitað byggt hagkerfi heimsins á olíu og kolum og það er meiriháttar mál að snúa hagkerfi heimsins frá því yfir í endurnýjanlega orkugjafa. Ef við horfum á stóru hagkerfi heimsins, Kína sem dæmi, þá er þar verið að vinna að gríðarlega hröðum framkvæmdum til að auka vægi endurnýjanlegra orkugjafa. Nýlega var Indlandsforseti í heimsókn og þeir eru í gríðarlegum framkvæmdum til að auka nýtingu sólarorku. Stóru viðfangsefnin verða þessar risaborgir þar sem hitun og kæling veldur svo mikilli losun. Þar er hins vegar hægt að nýta ýmsar lausnir á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, jarðvarma, sólarorku eða vindorku. Lausnirnar eru að fæðast og verða til en þetta er kapphlaup við tímann.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Katrín segir mikilvægt að fara þetta í skrefum.

En getum við minnkað losun um 18% á ári hér? „Við erum að byrja á orkuskiptum í samgöngum, það er einn hluti af okkar losun, við erum að auka kolefnisbindingu á móti sem auðvitað vegur upp á móti losun úr landbúnaði að einhverju leyti, álfyrirtækin á Íslandi, sem eru stórir aðilar á sviði losunar eru að fara inn í verkefni um hvernig hægt verði og hvort þau geti farið inn í það að binda aukið kolefni og draga þannig úr losun en þetta er auðvitað risastórt verkefni og það eru hindranir í veginum því við höfum byggt svo mikið á vexti í neyslu. Þá snýst þetta bæði um að horfa á þann vöxt og hvernig við getum breytt þeirri neyslu.“

Erfitt að breyta venjum 

Katrín velur þó að vera bjartsýn. „Ástæðan er sú að við höfum stundum séð rosalega hraðan árangur, til dæmis á Íslandi í fortíðinni. Ef við tökum hitaveituvæðingu Reykjavíkur má segja að það sé umbylting á mjög skömmum tíma sem gerbreytti lífsgæðum borgarbúa. Þegar ég horfi til stærri hagkerfa þá sé ég hraðar breytingar. Ég held að með þessu samstillta átaki og því að endurhugsa hvernig við gerum hlutina og nýta nýjustu tækni getum við náð árangri. Ég held við séum að sigla í rétt átt og mér finnst flestir vera að sigla með en um leið er það svo að við erum öll bara með okkar ákveðnu venjur og það er erfitt að breyta þeim, það er bara meira en að segja það.“ 

Getum orðið sjálfbærari og sjálfstæðari

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigrún Magnúsdóttir, fyrrv umhverfisráðherra, og Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum forseti lýðveldisins, endurheimta votlendi á Bessastöðum.

Katrín telur þær breytingar sem þurfi að ráðast í geta orðið til góðs fyrir efnahaginn og samfélagið. Þetta snúist ekki endilega um fórnir. Hún nefnir orkuskipti í samgöngum sem dæmi. „Það er breyting sem bæði verður til góðs fyrir efnahaginn og gerir okkur óháð innfluttum orkugjöfum, sem er risastórt efnahagsmál en getur líka bætt samfélag  okkar, breytt ferðavenjum, aukið lífsgæði. Breytingarnar þurfa ekki endilega að felast í fórnum en þær krefjast þess að við veltum hlutunum svolítið fyrir okkur.“

 En er ekki líka hætt við því að kostnaði vegna alvarlegra afleiðinga loftslagsbreytinga verði í framtíðinni velt yfir á almenning? Er hægt að halda því fram að líf okkar batni? „Það er ekkert víst í þessum efnum og eitt af því sem umhverfisráðuneytið og umhverfisráðherra eru að vinna er skoðun á því hvernig við getum lagað okkur að þeim breytingum sem munu verða, við sjáum að þegar hefur þetta haft áhrif á fiskistofnana í kringum Ísland, svo dæmi sé tekið og súrnun sjávarer beintengd loftslagsbreytingum. Auðvitað geta þetta orðið breytingar sem verða okkur erfiðar, ég geri ekki lítið úr því en þær geta líka, ef stjórnvöld halda vel á spilunum og leiðtogar í samfélaginu almennt, þá getum við líka nýtt þetta til góðs.“ Katrín nefnir líka matvælaöryggi, það megi gera betur í matvælaframleiðslu á Íslandi, við verðum þá óháðari öðrum og getum um leið stutt við loftslagsmarkmið. 

„Þetta verður aldrei svarthvítt“

Stjórnvöld eru að áðast í ýmsar loftslagsaðgerðir en margt sem þau gera hefur líka veruleg loftslagsáhrif. Er hægt að búast við því að almennir borgarar leggi sitt af mörkum, hjóli í vinnuna, kaupi minna eða fari sjaldnar til útlanda þegar stjórnvöld eru á sama tíma að gera eitthvað sem stuðlar að stóraukinni losun, til dæmis stækka Keflavíkurflugvöll og fá hingað fleiri ferðamenn? Katrín seir að vegna þessa megi ekki leggja alla ábyrgðina á einstaklinga en það sé hægt að auðvelda þeim að minnka sína losun til dæmis með bættum almenningssamgöngum eða nýjum fararskjótum. Þetta er auðvitað vandmeðfarinn balans og það er bara þannig með þessi mál að þetta verður aldrei svarthvítt, við þurfum að átta okkur á því að það verður aldrei skrúfað fyrir alla losun gróðurhúsalofttegunda á næstu örfáu árum. Við getum stigið stór skref í að draga úr henni og hjálpað fólki að gera það án þess að það hafi áhrif á lífsgæði þess, gefið  því valkosti sem flækja ekki líf þess, gera það ekki erfiðara en hjálpa til í þessari baráttu.“

Hún segir að einhvers staðar verði að byrja, það megi ekki hugsa sem svo að það taki því varla því vandinn sé svo stór. 

Áherslan þyngist þegar fram líða stundir

Það hefur verið talað um að það þurfi að verja 2,5% af heimsframleiðslu til loftslagsmála. Stjórnvöld hér eru í 0,05% þó auðvitað þurfi fleiri að leggja fé í þetta, atvinnulífið til dæmis. Er Katrín sátt við þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa ráðist í, ef hún hugsar um vandann, þær upplýsingar sem birtast í skýrslum milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna. Eru aðgerðir stjórnvalda hér nóg? „Ég horfi á það sem hefur verið gert, það er gríðarleg aukning í þennan málaflokk á þessu eina og hálfa ári frá því mín stjórn tók við. Ég er ánægð með árangur ríkisstjórnarinnar en þar með er ég ekki að segja að þetta sé nóg. Ég spái því að hlutfallið eigi eftir að hækka á næstu árum því við erum líka að sjá einkaaðila koma af auknum krafti inn í þetta verkefni. Ég spaí því að við eigum eftir að sjá áhersluna á þessi mál þyngjast, bæði í fjárlögum og útgjöldum ríkja, á næstu árum. Við erum ekki komin á neinn lokapunkt í því. Það er alveg á hreinu. Þetta er alltaf spurning um hvaða viðbrögð skila mestum árangri og við þurfum að vera mjög meðvituð um það að þó tíminn sé stuttur þurfum við að hafa sannfæringu fyrir því að aðgerðirnar sem við erum að ráðast í séu að skila sér. Þær þurfa að vera ígrundaðar á hverjum tíma. Ég tel að orkuskiptin eigi að geta gengið tiltölulega hratt fyrir sig, þegar kemur að samgöngum á landi en við eigum enn eftir að útfæra rafvæðingu hafna með hraðari hætti. Það þarf bara að taka þetta í skrefum.“ 

Katrín var meðal viðmælenda í fimmta þætti Loftslagsþerapíunnar þar sem fjallað var um lausnir og pólitík. Hlýða má á viðtalið í heild í spilaranum hér fyrir ofan. Þættirnir eru aðgengilegir í hlaðvarpi Rúv og á helstu hlaðvarpsveitum

Tengdar fréttir

Umhverfismál

11 þúsund vísindamenn krefjast aðgerða

Umhverfismál

Mikilvægt að hlusta og taka mark á börnum