Vill fá að hlera mútuþæga embættismenn

24.05.2016 - 08:56
Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, vill að heimild til að hlera embættismenn sem grunaðir eru um mútuþægni í starfi verði sett inn í lög um skilyrði til símhlustunar. Þetta kemur fram í umsögn hennar við frumvarp Ólafar Nordal þar sem brugðist er við þeirri gagnrýni að aðgerðir af þessu tagi séu heimilaðar í ríkari mæli en nauðsyn sé á og án nægjanlegs rökstuðnings.

Sigríður vísar í umsögn sinni til tilmæla OECD-Working Group on Bribery til íslenskra stjórnvalda. Þar kom meðal annars fram að skortur væri á sérstökum rannsóknarúrræðum í málum sem varða mútugreiðslur opinberra starfsmanna.

Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að grípa til símhlustunar ef rannsókn beinist að broti sem varðað getur sex ára fangelsi og að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess.  Þá eru talin upp nokkur hegningarlagabrot þar sem lögreglan getur óskað eftir heimild til símhlustunar - meðal annars í tengslum við skipulagða brotastarfsemi, vændisstarfsemi, frelsissviptingar og umfangsmikil auðgunarbrot. 

Sigríður telur að bæta þurfi  inn í þessa upptalningu 168. grein hegningarlaga. Þar kemur fram að ef opinber starfsmaður „heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi sem hann á ekki tilkall til í sambandi við framkvæmd starfa síns þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum eða sektum, ef málsbætur eru.“

Sigríður viðrar enn fremur áhyggjur sínar af því að það fyrirkomulag, að dómara verði skylt að skipa lögmann til að gæta hagsmuna þess sem er hleraður fyrir dómi, hafi í för með sér að málsmeðferðin verði töluvert tímafrekari en nú - lögmaðurinn verði enda að geta sinnt sínu verkefni á fullnægjandi hátt. „Ekki er útilokað að sú töf sem óhjákvæmilega verður [...] geti spillt rannsóknarhagsmunum í einstaka málum,“ segir Sigríður.

Þetta eru svipaðar áhyggjur og komu fram í umsögn Dómarafélags Íslands sem taldi að yrði frumvarpið samþykkt óbreytt hefði það í för með sér að meðferð þessara mála myndi þyngjast og fela í sér aukið álag á dómara og dómstólanna. 

Sigríður telur jafnframt að það verði erfitt fyrir dómara að ganga úr skugga um það með skjótum hætti að lögmaðurinn hafi engar tengingar við þann sem á að hlera. „Ekki verður heldur litið fram hjá fámenni íslensku þjóðarinnar sem gerir aðstöðuna hér aðra en í Danmörku, þangað sem fyrirmyndin að þessu fyrirkomulagi er sótt.“

Hún bendir á að dómari geti ekki leitað upplýsinga um hæfi lögmannsins nema upplýsa hann hvern eigi að hlera.  Þá verði að hafa í huga að þessu fyrirkomulagi fylgi nokkur kostnaður í réttarvörslukerfinu sem í dag líði fyrir fjárskort.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi