Vill ekki sjá fátækt í íslensku samfélagi

06.03.2020 - 18:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ásmundur Einar Daðason, félags - og barnamálaráðherra, segir að fjölþættar aðgerðir til að bæta stöðu fátækra séu í burðarliðnum hjá ráðuneytinu. Mismunandi er milli sveitarfélaga hversu mikla fjárhagsaðstoð fólk fær.

Í fréttaskýringaþættinum Kveik á þriðjudag var fjallað um fátækt. Þar var rætt við fólk sem á það sameiginlegt að þurfa að velta hverri krónu fyrir sér, jafnvel þótt það sé í fullri vinnu. Fimm til tíu prósent þjóðarinnar búa við fátækt.  

„Það er auðvitað þannig að við viljum ekki sjá fátækt í íslensku samfélagi og við eigum ekki að sætta okkur við það. Og við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að bæta stöðu þessa fólks sem býr við þess fólks sem býr við þessar aðstæður, og á sérstaklega börn. Þannig að auðvitað þegar svona umfjöllun kemur, þá tekur maður það alltaf til sín,“ segir Ásmundur Einar. 

Samfélagið þarf að grípa inn í 

Formaður Öryrkjabandalagsins kallaði í fréttum í fyrradag eftir aðgerðum stjórnvalda. Ásmundur Einar segir að verið sé að vinna að miklum lagabreytingum í frumvarpi sem verður tilbúið í samráðsgátt á næstu vikum. 

„Ég á von á því að nú á vordögum munum við geta hrint af stað fjölþættum verkefnum sem lúta að því að taka sérstaklega utan um þennan hóp. Því miður ganga hlutirnir alltaf hægar en maður vill og ætlar. En ég er algjörlega skýr með það að þarna verðum við sem samfélag að grípa inn í,“ segir Ásmundur Einar. 

Sveitarfélögin aðstoða mismikið fjárhagslega

Eins og staðan er í dag hafa fátækir mismunandi rétt eftir búsetu, það er að segja - sveitarfélögin aðstoða fólk mismikið fjárhagslega. Starfshópur á vegum félagsmálaráðuneytisins skilaði fyrir ári tillögum að því hvernig hægt er að samræma aðstoðina. Ásmundur Einar segir að það standi til að fylgja þessum tillögum eftir.

„Við erum að sjá að það er breytileiki á milli sveitarfélaga. Sem er kannski að hluta til eðlilegt í öðrum málaflokkum en þegar kemur að þjónustu við þennan viðkvæma málaflokk verða ríki og sveitarfélög að stíga fastar inn í og tryggja samræmdari þjónustu. Og það er kjarninn í þessari löggjöf sem við erum búin að vera að vinna í núna í eitt og hálft ár.“

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi