Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vill ekki landamæraeftirlit

02.03.2016 - 23:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra telur ekki ástæðu til að taka upp sérstakt vegabréfaeftirlit líkt og Svíar og Danir hafa gert og hún vill að Ísland sem fullvalda þjóð axli ábyrgð og taki á móti flóttamönnum og geri það vel.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, ræddi flóttamenn og hælisleitendur í umræðu um störf þingsins á Alþingi í gær og hafa þessi orð hans vakið mikla athygli. „Það er mikilvægt að við skoðum það hvort það sé nauðsynlegt á þessari stundu að flóttamönnum sé snúið eða hælisleitendum sé snúið við í Keflavík og þeir sendir aftur til síns heima.“

Ásmundur segist þekkja það af eigin raun að erfitt sé að taka þessa umræðu, fólk rífi hann bókstaflega í sig. Unnur Brá Konráðsdóttir, flokkssystir Ásmundar, sagði í hádegisfréttum að ummæli hans gengju gegn stefnu Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar og á Alþingi í dag voru ummælin rædd. „Í vanda sem glímt er við elur háttvirtur þingmaður á ótta fólks við innflytjendur og hoppar á vagn sem popúlistar, bæði í Evrópu og forsetaframbjóðandinn Donald Trump í Bandaríkjunum, keyra,“ sagði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar. 

Hún spurði félagsmálaráðherra hvort hún tæki undir orð Ásmundar Friðrikssonar. Ráðherra sagðist vera stuðningsmaður EES-samningsins og ekki vilja íhuga úrsögn úr Schengen. „Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við gerum okkar sem fullvalda þjóð, öxlum okkar ábyrgð, við tökum á móti flóttamönnum í samræmi við okkar alþjóðlegu skyldur og gerum það eins vel og við mögulega getum. Ég tel ekki ástæðu til að við förum að taka sérstaklega upp vegabréfaeftirlit með sambærilegum hætti og til dæmis Svíar og Danir hafa gert,“ svaraði Eygló. 

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV