Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vill breytingar vegna hættulegs útbúnaðar

Mynd með færslu
 Mynd: RNSA / RÚV - Sigurður Þóriss - RÚV
Rannsóknarnefnd Samgönguslysa vill breytingar í framhaldi af ófullnægjandi útbúnaði Toyota-bifreiðar, sem lenti í árekstri. Upplýsingafulltrúi Toyota segir umboðið ekki bera ábyrgð á breytingum sem gerðar voru á henni. 
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rannsakendur á vettvangi slyssins í júní 2018.

Slysið varð í júní í fyrra á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi. Ökumaður fólksbifreiðar fór yfir á öfugan vegarhelming og skall á Toyota Hiace bifreið og lést við áreksturinn. 

Níu voru í Toyota-bifreiðinni; hjón með sex börn sín og einn frænda á aldrinum þriggja til sextán ára. Þau slösuðust öll en ekkert lífshættulega. 

Mynd með færslu
 Mynd: RNSA / RÚV - Sigurður Þóriss - RÚV
Mynd úr skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Toyota afhenti kaupendum breyttan bíl

Myndir úr skýrslu rannsóknarnefndarinnar eru hrikalegar af sætafestunum. Flatjárn þeirra bognuðu og boltafesta losnaði upp úr gólfinu. Ófullnægjandi og óvottað, segir í skýrslunni. 

Í henni segir að Toyota Hiace bifreiðin hafi verið skráð sem breytt fólksbifreið hálfum mánuði eftir að hún var nýskráð fyrir 13 árum og var þá búið að setja tvo þriggja manna sætisbekki fyrir milligöngu umboðsaðila bifreiðarinnar. Það er Toyota á Íslandi. Bifreiðin hafi síðan verið afhent kaupanda af umboðinu útbúin með þeim sætum, sem í henni voru þegar slysið varð. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Páll Þorsteinsson.

Ber ekki ábyrgð á breytingunni

Ber þá Toyota ekki einhverja ábyrgð?

Toyota ber í sjálfu sér ekki ábyrgð á breytingunni,“ segir Páll Þorsteinsson upplýsingafulltrúi Toyota á Íslandi. 

„Við framkvæmdum ekki breytinguna og við bárum ekki ábyrgð á að hún yrði viðurkennd. Það voru aðrir aðilar sem að skoðuðu bílinn á eftir. Þessi bíll eins og aðrir sem fara í svona breytingu eru breytingaskoðaðir. Síðan koma þeir í skoðun einu sinni á ári eftir það.“

Af því að þið hafið milligöngu um breytingarnar máttu þá ekki kaupendurnir treysta því að þarna væri vandað til verka?

„Það var vandað til verka og allar kröfur voru uppfylltar eins og þær voru þá. En það er dáldið langt síðan að þetta gerðist, kröfur hafa breyst, bæði hjá yfirvöldum og hjá neytendum sjálfum, þ.a. þeir bílar, eins og þeim var breytt þá, þú sérð ekki nýja svona bíla í dag.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Bílsæti sem bætt hefur verið við ytra í Toyota Proace.

115 breyttir Toyota Hiace bílar

Toyota hefur ekki flutt inn þessa tegund síðan 2011. Vilji fólk bæta sætum við í nýju tegundinni eru þau flutt inn með sætunum, sem eru viðurkennd í Evrópu segir Páll. Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu eru 115 Toyota Hiace bílar fyrir fimm farþega eða fleiri á götunum á Íslandi. 

„Það eru bílar á götunum með viðbættum sætum, viðbættum brettaköntum, búið að hækka og breyta alla vega. Við getum ekki bannað Toyota eigendum að breyta bílunum sínum frekar en við getum bannað þeim að keyra of hratt,“ segir Páll. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sætisfestingar í Toyota Hiace bifreið á bílasölu.

Margar ábendingar

Rannsóknarnefndin beinir til Samgöngustofu að fara þurfi yfir reglur til að tryggja að óvottuð sæti og festingar séu ekki sett í bifreiðar. Í tillögu nefndarinnar segir að fleiri bílar með sambærilegum farþegabekkjum séu í umferð og vill að Samgöngustofa athugi hvernig hægt sé að breyta þeim sætafestum sem séu í umferð. Samgöngustofa fer nú yfir þetta. 

Þá vill nefndin að flýtt verði aðgreiningu akstursstefna Vesturlandsvegar á Kjalarnesi til að fyrirbyggja framanákeyrslur. Þarna aka 10 þúsund ökutæki á sólarhring. 

Rannsóknarnefndin beinir til Toyota á Íslandi og annarra sem selji breytt ökutæki að huga vel að öryggismálum. Ennfremur er ökumönnum bent á að sýna aðgæslu við framúrakstur.