Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vill auknar niðurgreiðslur til innanlandsflugs

29.08.2019 - 14:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmaður Sjálfstæðisflokks telur nauðsynlegt að innanlandsflugi verði búið sama umhverfi og ferjum og strætisvögnum. Flugið ætti að verða hluti af almenningssamgöngum og niðurgreitt af ríkinu. Það eitt að fjölga farþegum dugi ekki til að efla innanlandsflug.

Innanlandsflug var á dagskrá umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun. Stærstu flugfélögin innanlands hafa ákveðið að draga saman seglin, fækka ferðum og selja flugvélar. Á fundinn komu fulltrúar frá flugfélögunum Erni og Air Iceland Connect, ásamt fulltrúum Isavia.

Mikilvægar upplýsingar fyrir verkefnið

„Ég tel þetta hafa verið mjög upplýsandi og góðan fund um stöðu mála. Og hvert verkefnið er, til þess að hafa innanlandsflugið sem valkost í almenningssamgöngum á Íslandi,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en fundur nefndarinnar var haldinn að hans beiðni.

Fluginu verði búið sama umhverfi og ferjum og strætó

Vilhjálmur segir það stefnu stjórnvalda að efla almenningssamgöngur. Þar njóti ferjusiglingar og akstur strætisvagna niðurgreiðslna frá ríkinu og nú verði að búa innanlandafluginu sama umhverfi. Skoska leiðin svokallaða sem rætt er um að farin verði á næsta ári, snúist fyrst og fremst um að niðurgreiða flugfargjöld. „Ég held að það sé alveg ljóst að innanlandsflugið getur ekki bara  keppt á þessum litla markaði með því að fjölga farþegum. Það eitt mun ekki duga til að efla innanlandsflugið.“

Þarf að styrkja flugið til að viðhalda grunnþjónustu

„Þá þurfum við að hafa viss framlög til flugsins til þess að viðhalda einhverri grunnþjónustu,“ segir Vilhjálmur. „Búa til almenningssamgangnakerfi til þess að flugið geti haldið vissri tíðni og vissum stöðugleika í verðum. Og svo verðum við aðstoða notandann á hinum endanum. Það gerum við í gegum Skosku leiðina.“