Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill áherslu á iðnmenntun og frumkvöðlastarfsemi

06.02.2020 - 10:30
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Aukin áhersla á iðnmenntun og frumkvöðlastarfsemi eru mikilvægustu þættirnir til að huga að til að auka hagvöxt. Þetta sagði Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, á opnum fundi með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun.

„Þetta er tiltölulega stór spurning. Af því að ég er nýkominn úr háskólanum þá væri gaman að segja menntun. Og það er rétt að ákveðnu leyti, menntun. Kannski ekkert endilega háskólamenntun, heldur líka verkmenntun. Svo líka hagstæð skilyrði fyrir frumkvöðla,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði hann hvað hann teldi að væri mikilvægast til að auka hagvöxt. Ásgeir sagði að það þyrfti að huga að fjármögnun frumkvöðlafyrirtækja. 

Ásgeir nefndi líka að sveigjanleiki í hagkerfinu og sveigjanleiki á vinnumarkaði væru mikilvægir þættir til að örva hagvöxt. „En fyrsta skrefið væri að orðið framleiðni væri notað í kjaraviðræðum. Ekki leiðrétting eða eitthvað annað. Þetta hugtak yrði miklu meira viðmið í almennri umræðu en við höfum séð,“ segir Ásgeir. 

Sigmundur spurði þá hvort það væri of djúpt í árinni tekið að segja að of mikil áhersla hefði verið lögð á menntun sem sé nú þegar fullmettuð á vissum sviðum og skilar ekki framleiðniaukningu og of lítil áhersla verið lögð á menntun á sviðum þar sem þörf er á henni. 

„Ég er alveg sammála því. Ég er að vísu ekki að tala sem seðlabankastjóri núna en ég er alveg sammála því að við höfum lagt of mikla áherslu á bóknám. við erum að sjá mjög mikið brottfall úr framhaldsskólum og erum að sjá of mikið af fólki sem fær ekki menntun í neinu sérstöku fagi og fer út á vinnumarkaðinn án menntunar. Ég held að við þurfum að einhverju leyti að leggja miklu meiri áherslu á verkmenntun,“ sagði Ásgeir og tók fram að hann teldi að það þyrfti að endurskipuleggja nám.

Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri sagði að skortur á framleiðniaukningu væri vandamál sem flestar þjóðir hefðu verið að glíma við frá fjármálakreppunni. „Það er mjög lítið af skýringum. En þetta er vandamál sem aðrar þjóðir eiga við að etja líka,“ sagði hún.