Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill að stjórnvöld taki fátækt fastari tökum

04.03.2020 - 17:15
Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi og umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfsins. - Mynd: RÚV / RÚV
Stjórnvöld stefna að því að árið 2030 verði helmingi færri undir fátæktarmörkum á Íslandi en nú. Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, segir að eigi það að takast þurfi stjórnvöld að setja mælanleg markmið. Vilborg telur rétt að leggja Tryggingastofnun niður og og koma í veg fyrir að fólk eigi á hættu að verða tekjulaust mánuðum saman. Þá vill hún að fátækt fólk komi meira að stefnumótun í málaflokknum. 

Stórt samfélagslegt vandamál

Á bilinu 18-35 þúsund búa við fátækt hverju sinni, eða 5-10 prósent landsmanna. Sjö til tíu þúsund manns eru í mikilli neyð, teljast búa við sárafátækt. Kveikur fjallaði í gær ítarlega um stöðu þessa hóps.

Sjá nánar: Svona er fátækt á Íslandi

Vilborg Oddsdóttir, stýrir innanlandsstarfi Hjálparstarfs kirkjunnar og fer fyrir hópi Velferðarvaktarinnar um sárafátækt. Hún vill að stjórnvöld taki málaflokkinn fastari tökum. „Það kom fram í þætti Kveiks í gær að það ætti að minnka fátækt fyrir árið 2030, út af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, en það þurfa þá að vera mælanleg markmið, ekki bara við ætlum heldur hvernig á að gera það.“

Hún segir ekki duga að stofna nefndir og starfshópa, skýr aðgerðaáætlun sé forsenda þess að fjölmiðlar og félagasamtök geti veitt stjórnvöldum aðhald og slík áætlun sé ekki til. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Beðið eftir matarúthlutun.

Engin allsherjarlausn

Vilborg segir margt hægt að gera til að bæta stöðu fátækra á Íslandi. „Þetta er samt ekki bara einhver ein ákvörðun, ef ég segði að á morgun myndu allir hækka um 70 þúsund krónur á mánuði, þá dygði það ekki eitt og sér. Það myndi hjálpa flestum til betra lífs en á sama tíma þarf að koma böndum á húsnæðismarkaðinn.“

Vilborg segir að nýlega hafi leitað til hennar maður sem leigði íbúð á 315 þúsund krónur á mánuði. Það segi sig sjálft að það dugi ekki að hækka grunnframfærslu fólks ef leigan hækki alltaf á móti. „Það þarf að styrkja félagslega búsetukerfið, eins og Bjarg, og setja lög á leigufélögin eins og er í kringum okkur.“

„Allt þetta er farið“

VIlborg telur mestu skipta að tryggja grunnþarfir fólks, að það hafi nóg að borða, geti fari í frí og veitt börnum sínum gott atlæti. Hún segir mikilvægt að skólamáltíðir og önnur grunnþjónusta fyrir börn sé gjaldfrjáls og aðgengi að tómstundum jafnt óháð efnahag foreldra. 

Þá segir hún mikilvægt að horfa til þess hversu fjölbreyttur hópurinn sem býr við fátækt er. Almennar fjárhagslegar aðgerðir myndu hjálpi mörgum, til dæmis húsnæðisbætur eða barnabætur, en fólk sem lengi hefur átt erfitt þurfi líka oft sértækari stuðning. „Sumir hafa búið lengi við félagslega lélegt atlæti og eru kannski þriðja kynslóð þeirra sem búa við fátækt. Sjálfsmatið, sjálfsvirðingin, trúin á að þeir geti eitthvað, það að hafa markmið og eiga sér drauma, allt þetta er farið og það er þetta tómarúm sem er svo erfitt að fylla því þú hefur ekki trú á því að þú sért neins virði í þessu samfélagi. Þá dugar ekki þessi launalega hækkun.“

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Vilborg segir foreldra stundum þurfa aðstoð við að rjúfa vítahringinn.

Foreldrar þurfi stuðning til að styðja börn sín

Hún telur að skólakerfið þurfi að styðja betur við fátækar fjölskyldur, til dæmis ef börn byrja að forðast það að mæta í skólann. Foreldrar sem glíma við fátækt hafi margir lent í áföllum í æsku og þurfi stundum stuðning til að geta stutt við börnin sín. „Fátækt fylgir oft þessi mikli kvíði og þunglyndi og þá áttu svolítið erfitt með að taka af skarið og gera eitthvað.  Það þarf kannski að setja stuðning inn til foreldranna, fá málstjóra í mál sem fylgir foreldrunum og tryggir að þeir fái sinn rétt. Stundum ertu bara á þeim stað að þú kannt ekki að biðja um hjálp fyrir sjálfan þig.“ 

Vilborg segir líka þörf á fleiri virkniúrræðum. Nú endurnýji fólk örorkubæturnar á þriggja ára fresti og kerfið skeyti engu um hversu virkt það sé. Fólk endi þá kannski bara á að koðna niður heima hjá sér og missa trú á að það geri gagn í samfélaginu. 

Vill leggja Tryggingastofnun niður og tryggja framfærslu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tryggingastofnun.

Vilborg vill að kerfin spili betur saman, margt fólk verði fátækt eftir að hafa dottið ofan í glufu í kerfinu og orðið tekjulaust í einhvern tíma. „Ég segi bara, það á bara að leggja Tryggingastofnun niður eins og hún er í dag, hún virkar ekki. Við eigum bara að hafa eina greiðslustofnun þar sem þú færð útborgaðar atvinnuleysisbætur, framfærslu félagsþjónustunnar, ellilífeyrinn, tryggingabætur eða örorkubætur svo þú dettir aldrei á milli kerfa. Í dag er fólk kannski launalaust í tvo mánuði á meðan það er á milli kerfa. Það tekur þá sem eru á lægstu laununum heila eilífð að ná sér upp úr því ef þeir nokkurn tímann geta það. Þú ert kannski tekjulaus og þá kannski missirðu húsnæði, ert kominn í húsnæðisskuld, skuldar leikskólann, ert bara kominn í vítahring, ferð að taka smálánin með öllum þeim kostnaði. Þetta er eitt af því sem er hægt að laga bara á morgun, að það sé þannig að enginn sé tekjulaus.“

Ekki neinni einni ríkisstjórn að kenna

Vilborg segir að fátæktarvandinn sé ekki neinni einni ríkisstjórn eða sveitarstjórn að kenna en gagnrýnir þó núverandi ríkisstjórn fyrir að bíða með að taka út krónu á móti krónuskerðinguna þar sem ekki hafi náðst sátt um nýtt starfsgetumat fyrir öryrkja. Hún segir fátæktarvandann í íslensku samfélagi teygja sig marga áratugi aftur í tímann. Það haf aldrei verið tekið á rótum hans og fyrst um sinn hafi raunar ekki verið viðurkennt að hér á landi byggi fólk við fátækt. „Við höfum aldrei horft á hvað er hægt að gera til að varna því að fólk lendi í þeim aðstæðum sem það lendir í. Við erum alltaf að bjarga okkur fyrir horn með einhverjum úrræðum. Þetta er kerfisvilla í samfélagi okkar.“

Pólitísk ákvörðun

Vilborg telur að staða þess hóps sem býr við fátækt hafi í raun bæði batnað og versnað síðastliðin ár. Staðan á húsnæðismarkaði hafi gert vont ástand verra, laun fólks hverfi oft öll í leigu. Það jákvæða sé aukin valdefling fátæks fólks, það sé farið að láta í sér heyra og skila skömminni. Hún segir mikilvægt að tryggja aðkomu þessa hóps að stefnumótun því fátækt fólk viti sjálft best hverjar þarfir þess séu. „Það er það sem stjórnvöld núna verða að virkja og hlusta og þora að taka þessari áskorun að vinna með þeim sem eru núna í grasrótinni. Þetta er náttúrulega pólitísk ákvörðun, sá sem heldur á hnífnum, hvernig ætlar hann að skera kökuna og við hverja ætlar hann að tala. Það þýðir ekki að skipa enn eina nefndina ef í þessum nefndum situr aldrei neinn sem hefur reynslu og veit hvað þarf til.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV