Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vill að stjórnvöld standi við orð sín

18.10.2015 - 12:48
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
 Mynd: RÚV
Íslensk stjórnvöld verða að standa við orð um að hælisleitendur verði ekki sendir aftur til Grikklands, segir varaformaður Samfylkingarinnar. Lögmaður telur að sýrlensk fjölskylda, sem var synjað um efnislega meðferð á hælisumsókn sinni, verði ekki send aftur til Grikklands.

Wael Aliyadah og Feryal Aldahash frá Sýralandi komu hingað með tveimur ungum dætrum sínum, Jouli og Jönu, fyrir þremur mánuðum. Þeim var fyrir helgi synjað um efnislega meðferð á hælisumsókn sinni, þar sem þau eru með hæli í Grikklandi.

Innanríkisráðherra hefur sagt að ekki sé öruggt að senda hælisleitendur þangað. Fólkið segist aldrei hafa ætlað sér að sækja um hæli í Grikklandi, heldur hafi það neyðst til þess til að komast hjá því að vera hneppt í varðhald. Faðirinn sagðist í sjónvarpsfréttum í gærkvöld óttast að þurfa að búa á götunni og verða viðskila við börn sín þurfi fjölskyldan að fara aftur til Grikklands.

Ragnar Aðalsteinsson lögmaður segir að lögfræðilega sé niðurstaða Útlendingastofnunar ugglaust rétt. „En það má ekki gleyma því að Ísland hefur þá stjórnarstefnu að endursenda fólk ekki til Grikklands. Þannig að ég held að afstaða mín hljóti að vera sú að eitt sé að taka þessa ákvörðun um synjun, og annað sé að framkvæma endursendinguna til Grikklands, og það verði ekki gert.“

Ragnar segir að Útlendingastofnun hefði getað farið aðra leið og veitt fjölskyldunni leyfi til að setjast að á Íslandi af mannúðarástæðum, vegna ástandsins í Grikklandi og heimalandinu.

Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, segist ætla að biðja um skýringar á málinu á Alþingi á morgun. „Mér þykir það skjóta skökku við ef þessi fjölskylda, og þá væntanlega gerist það sama fyrir aðra, ef að það á að fara að senda hana aftur til Grikklands eftir þessar yfirlýsingar ráðherrans. Og þá spyr maður sig bara, er ekkert að marka það sem stjórnvöld segja? Menn verða að taka þessi mál alvarlega, því hér er líf fólks í húfi, að það fylgi orðum athafnir,“ segir Katrín.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV