Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill að skattlagning miðist við lóðir en ekki byggingar

28.11.2019 - 18:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, leggur til að áætlað lóðarverð verði andlag fasteignaskatts,í stað fasteignamats á þeim húsum sem á þeim standa. Þetta kom fram í dag, í sérstakri umræðu á Alþingi um lóðagjöld á bújörðum og skattalega hvata til að halda jörðum í ábúð. Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir að forsendur til að taka upp slíkt kerfi séu ekki fyrir hendi í dag.

Bjarkey segir að fasteignagjöld séu mikilvægur tekjustofn fyrir sveitarfélögin sem sæti þó gagnrýni fyrir að vera óhagkvæm. Fasteignamat taki nú bæði til verðmætis þeirra bygginga sem á landinu hvíla og lóðarmats. Hún telur að frekar eigi að miða gjaldstofninn við lóðarmatið, eða jarðarmatið, eitt og sér.

Skilvirkara sé að skattleggja landið sjálft en ekki þær byggingar sem á því standa. Skattleggja ætti rentuna af landinu í stað fjárfestinga í íbúða- eða atvinnuhúsnæði. Þannig renta sé ekki hagkvæm fyrir samfélög, sér í lagi ef eignir safnast á fárra hendur. 

Sporna þarf við tilgangslausri jarðasöfnun

Bjarkey bendir að að gögn um kaup og sölu á jörðum séu ekki skráð í opinbera gagnagrunna og því ekki hægt að reikna út markaðsverð jarða á sama hátt og lóðarverð er reiknað út. Úr þessu þurfi að bæta og hafi þingmál þess efnis verið lagt fram. 

Núverandi kerfi er ófullnægjandi að hennar mati. Erfitt virðist vera að komast að raunverulegu eignarhaldi jarða, líkt og sýnt hafi verið fram á í fréttaskýringarþættinum Kveik. Einn aðili eigi nú um 1,5 prósent af landinu. Mikilvægt sé að hömlur verði settar á jarðakaup en einnig sé nauðsynlegt að hafa efnahagslegan hvata gegn tilgangslausri jarðasöfnun. 

Slíkir hvatar geti til að mynda falist í því að hlunnindi af laxveiðum verði reiknuð inn í markaðsvirði. Það verði til dæmis hægt að gera þannig að sveitarfélög fái heimild til að leggja hærri lóðargjöld á jarðir sem eru skilgreindar sem landbúnaðarland í deiliskipulagi sveitarfélaga en jarðir þar sem enginn landbúnaður er. 

Áhugaverð hugmynd en myndi koma róti á fasteignamarkaðinn

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að hugmyndin um að lóðargjöld taki við af núverandi fyrirkomulagi sé áhugaverð en myndi koma miklu róti á fasteignamarkaðinn. Íbúar yrðu þá bæði fyrir miklum gjaldhækkunum og lækkunum. 

Forsendur fyrir því að taka slíkt kerfi upp séu ekki fyrir hendi. Það þurfi, og megi, bæta núverandi fasteignaskráningakerfi og rökrétt sé að hugað verði betur að mati lands. Til þess að það geti orðið þurfi að efla skráningu á landi því án bættrar skráningar verði lítil sem engin framþróun á verðmæti landeigna.  

Gagnger endurskoðun nauðsynleg

Karl Gauti Hjaltason þingmaður Miðflokksins segir brýnt að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga. Breytingu í þá átt að álagning fasteignaskatta taki fremur mið af landsvæðinu en þeim byggingum sem á því standa, þyrfti að skoða síðar, að nauðsynlegri gagngerri endurskoðun á aðferð og álagningargrunni fasteignaskattanna lokinni. 

Fasteignaskattar hafi hækkað upp úr öllu valdi síðastliðin ár og langt umfram verðlag í landinu. Fasteignaskattur hafi hækkað yfir sextíu prósent í Reykjavík á síðustu fjórum árum og sagan sé svipuð í mörgum öðrum sveitarfélögum að sögn Karls Gauta. 

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, spurði hvort eðlilegt væri að fara út í skattlagningabreytingar sem þessar, þar sem álagning eigi að vera mismunandi eftir því hvort land sé í ábúð eða ekki, og velti því upp hvort slíkt stæðist jafnræði.