Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Viljum bara að hrausta fólkið smitist“

15.03.2020 - 19:55
Mynd: RÚV / RÚV
171 kórónaveirusmit hefur greinst hérlendis. Þrír liggja smitaðir á Landspítalanum. Sex þeirra sem fóru í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu reyndust smituð. Sóttvarnalæknir segist vilja að hrausta fólkið sýkist bara og að veikinni verði haldið frá viðkvæmum hópum. Mikið álag er á heilsugæsluna. Heilsugæslan í Mosfellsbæ verður lokuð á morgun vegna smits starfsmanns. 

Smit greinast í víðar

Hingað til hafa smit verið bundin við höfuðborgarsvæðið og Suðurland. Nú hefur einn greinst með smit á Reykjanesskaga og einn á Norðurlandi eystra. Í öllum landshlutum er fólk í sóttkví og fer fjölgandi. Ætla má að um 2500 manns séu í sóttkví núna. Tæplega 2000 sýni hafa verið greind á veirufræðideild Landspítalans. Og Íslensk erfðagreining greinir líka sýni sem ekki eru inn í þessari tölu. Flestir hinna smituðu voru á skíðum í Ölpunum. Ekki er vitað hvernig 23% þeirra, sem hafa verið greindir, smituðust. 

Þrír á spítala

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir þrjá einstaklinga með smit liggja á Landspítalanum, þar af einn á gjörgæsludeild. Þeir eru á sextugs- og sjötugsaldri. Tveir hafa þegar verið útskrifaðir. 

Þrettán starfsmenn Landspítalans hafa greinst með smit og eru þeir í einangrun. 130 starfsmenn spítalans eru í sóttkví. 

Varar við villandi upplýsingum

Sóttvarnalæknir varar við undarlegum útreikningum sem birst hafa á samfélagsmiðlum um hátt hlutfall sem gæti smitast hér. Hlutfallslega miðað við Hubei-hérað í Kína megi kannski búast við að 30 manns fari á gjörgæsludeild ef faraldurinn yrði svipaður hér og þar. 

Þrír af sex, sem ÍE greindi, voru einkennalausir

Sex af þeim tæplega 600 manns sem komu á föstudaginn í skimun eftir kórónaveirunni hjá Íslenskri erfðagreiningu greindist með smit eða eitt prósent. Þrír þeirra voru með væg einkenni en þrír einkennalausir. Helmingurinn hafði nýlega verið í útlöndum. Haft er samband við alla sem greinast og allir fá senda niðurstöðu á heilsuvera.is. Sóttvarnalæknir segir ekki hægt að draga þá ályktun af þessari niðurstöðu að 1% Íslendinga smitist eða 3600 manns. 

„Þetta gefur vísbendingar um það að það sé ekki víðtækt smit í samfélaginu,“ segir Þórólfur. 

Hann segir fleiri niðurstöður eftir að koma úr þessu og að þær hjálpi til við að meta til hvaða aðgerða eigi að grípa. Vitað sé að hluti þjóðarinnar eigi eftir að fá sýkingu. 

„Við viljum bara að það sé hrausta fólkið sem fær þessa sýkingu. Við viljum halda veikinni frá viðkvæmum hópum. Vegna þess að við vitum það að heilbrigt fólk, lang, langflest, sem fær þessa sýkingu mjög vægt.“

Heilsugæslan í Mosfellsbæ lokuð vegna smits

Starfsmaður heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur greinst með smit. Brugðist hefur verið við þessu og verður heilsugæslustöðin í Mosfellsbæ lokuð af þessum sökum á morgun. 

Geysilegt álag er á heilsugæsluna segir Óskar Reykdalsson forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Á það við um símanúmerið 1700 og netspjallið á heilsuvera.is. 800 erindi komu á netspjallið á heilsuvera í gær, fyrir ári voru þau 10 til 15 á dag. Heilsugæslan er að flytja fólk milli starfa til að sinna þessu. 

„Við erum svolítið að benda fólki á það að skoða heimasíðurnar, Covid.is, heilsugæslan.is og heilsuvera.is. Fólk er að spyrja um kannski hvað er sóttkví. Og þetta stendur allt mjög skýrt á þessum heimasíðum.“

Lasnir veri heima en veikir hringi í heilsugæsluna

Þeir, sem eru lítið lasnir eins og með hita, hósta, hálsbólgu, höfuðverk eða beinverki eiga að vera heima og fara vel með sig eins og þegar fólk er lasið. Hins vegar eiga þeir, sem eru meira veikir með öndunarerfiðleika og mikla veikindatilfinningu vitanlega að hafa samband segir Óskar. Margt fólk sem hringir er órólegt og kvíðið, best er að tala við einhver sem maður þekkir, hreyfa sig og halda venjulegri rútínu. 

„Og maður þarf að forðast svolítið öfgakenndar hugsanir því þær leiða mann ekki endilega á réttar brautir.“

Margar gagnlegar upplýsingar og fræðsla eru á covid.is til dæmis um áhyggjur og kvíða.

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV