Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Viljayfirlýsing um stórskipahöfn í Finnafirði

15.12.2015 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sveitarfélög á Norðausturlandi, íslenska ríkið, þýska fyrirtækið Bremenport og Efla eru aðilar að viljayfirlýsingu um uppbyggingu stórskipahafnar í Finnafirði. Ekki er gert ráð fyrir að ríkið leggi fjármuni til verkefnisins fyrst um sinn.

Stefnt er að því að skrifa undir yfirlýsinguna í byrjun árs. Í viljayfirlýsingunni er verkefninu skipt upp í tvo áfanga. Í fyrri áfanganum, sem gert er ráð fyrir að ljúki árið 2018, verður áfram unnið að því að safna saman upplýsingum um aðstæður til hafnarbyggingar í Finnafirði.

Í maí í fyrra var undirritaður samstarfssamningur á milli þýska fyrirtækisins Bremenports og Langanesbyggðar um að fyrirtækið greiði mörg hundruð miljóna króna rannsóknir á því hvort skynsamlegt sé að reisa stórskipahöfn í Finnafirði. Rannsóknir á lífríki, veðurfari og jarðlögum hafa verið gerðar.

Sveinn Þorgrímsson verkfræðingur í atvinnuvegaráðuneytinu sagði í samtali við fréttastofu að gangi áætlanir eftir sé gert ráð fyrir að í lok fyrri áfangans verði það skoðað mjög ítarlega, áður en ákvörðun verður tekin um framhaldið, hvort raunhæft sé að fara af stað með einhvers konar uppbyggingu innviða í firðinum. Hann segir að þangað til muni ríkið ekki leggja neina fjármuni í verkefnið. Aðkoma ríkisins í þessum fyrri áfanga snýr fyrst og fremst að því skoða verkefnið í samhengi við aðra uppbyggingu á þessu landsvæði svo sem raforku - og vegakerfi.

Ólafur Áki Ragnarsson sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps sagðist jákvæður gagnvart verkefninu. Viljayfirlýsinginn verður tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar Langanesbyggðar í dag og vildi Oddviti Langanesbyggðar Siggeir Stefánsson ekki tjá sig um hana að svo stöddu.

Freyja Dögg Frímannsdóttir
Fréttastofa RÚV