Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vilja votta dýravelferð á Íslandi

17.10.2015 - 19:23
Grís á svínabúi í Eyjafirði, tekið haustið 2015. Skjáskot úr sjónvarpsupptöku.
 Mynd: RÚV
Dýraverndarsamband Íslands hyggst koma á fót vottunarkerfi fyrir velferð búfjár. Formaðurinn segir að neytendur þurfi að íhuga að borða minna kjöt og huga betur að dýrum.

Þurfa að treysta framleiðandanum
Íslenskum neytendum getur reynst nær ómögulegt að ganga úr skugga um að kjöt og aðrar dýraafurðir sem þeir kaupa séu framleiddar á þann hátt sem neytandinn sættir sig við. Sjaldnast eru merkingar um dýravelferð á umbúðunum, og þar sem þær eru til staðar þarf neytandinn að treysta framleiðandanum. Þessu vill Dýraverndarsamband Íslands breyta.

Vilja breikka valmöguleika neytenda
Dýraverndarsambandið leitar fanga um viðmið í Hollandi, Bretlandi og Danmörku, til að koma á fót óháðu vottunarkerfi fyrir velferð búfjár, og hyggst styðjast við alþjóðlega staðla um hlutleysi vottunar. Hallgerður Hauksdóttir, formaður sambandsins, segir að nú sé verið að vinna undirbúningsvinnu og afla gagna. „Þetta snýst fyrst og fremst um það að við breikkum valmöguleika fólks þannig að það geti kynnt sér velferð dýra sem það er að neyta afurða af og keypt það beint úr búðinni, merkt, sem er ekki hægt í dag.“

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segist í samtali við fréttastofu fagna hugmyndunum. Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir að sér lítist vel á þær. Mikilvægast sé að þeir sem taki að sér slík vottunarkerfi séu tilbúnir að fylgja því eftir svo eitthvað sé á bak við merkingarnar. Ef vel sé að því staðið geti þetta verið jákvætt bæði fyrir bændur og neytendur.

Höfða til almennra neytenda
Hallgerður segir að vottunin eigi að höfða til hins almenna neytenda. „Það er mikil breidd, það er allt frá fólki sem finnst glæpsamlegt að borða kjöt, og yfir í fólk sem finnst bara að engum komi við hvernig er farið með dýr. En þarna á milli er langstærsti hópurinn. Það er hópur sem neytir dýraafurða, en er jafnframt tilbúinn til að láta sig varða hvernig er farið með dýr.“

Fyrst og fremst fyrir dýrin
Hallgerður segir að vottunin sé fyrst og fremst fyrir dýrin. „Þetta er til þess að það sé hægt að auka velferð dýra og til þess að bændur sjái ástæðu til þess að keppast að því.“ Hún segir að tvímælalaust sé aukið ákall í samfélaginu eftir afurðum sem eru framleiddar með dýravelferð í fyrirrúmi.

Jarðarbúar séu tvöfalt fleiri nú en 1970 og hafi ekki undan að framleiða dýraafurðir með sómasamlegum hætti. „Við þurfum virkilega að fara að endurskoða það hvort við þurfum ekki að borða minna kjöt og huga betur að dýrunum sem við erum að ala til þess,“ segir Hallgerður.