
Við framleiðslu á ostum situr mikil mysa eftir í tönkum Mjólkursamsölunnar. Stór hluti hennar er nýttur til að framleiða mysuprótein, sem síðan er blandað í sérstaka próteindrykki. Nú skoðar Mjólkursamsalan hvort ekki sé hægt að nýta þá mysu sem situr eftir, þegar búið er að skilja próteinið frá. Til greina kemur að framleiða eldsneyti, iðnaðarspíra, eða það sem er verðmætast; vínanda.
„Við erum að reyna að fanga þau verðmæti sem eru í mysunni, það eru talsvert af þurrefnum sem við getum nýtt til annarra hluta,“ segir Kristín Halldórsdóttir, mjólkurbússtjóri MS á Akureyri.
Í dag er þessi umframmysa seld til svínabænda sem nota hana í fóður. Talsvert meiri ávinningur er af því að nýta hana til framleiðslu á vínanda, samkvæmt rannsókn sem gerð var í Háskólanum á Akureyri, í samstarfi við Matís og brugghúsið Foss.
„Við höfum skoðað þetta í langan tíma og höfum núna sótt um styrk til Rannís til að vinna að þessum rannsóknum.“
Þó gæti verið langt í að neytendur geti bragðað vín sem er framleitt með þessum hætti.
„Þetta er á miklu frumstigi og við vonum bara að ef við fáum styrk, þá geti þetta unnist hraðar.“