Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vilja upprunamerkja íslenska framleiðslu

25.07.2015 - 14:18
Mynd með færslu
 Mynd: Freimut Bahlo/Creative Commons
Skortur á upprunamerkingum og rangar merkingar valda tjóni á íslenskri framleiðslu að mati lögfræðings Samtaka iðnaðarins. Nefnd á vegum stjórnvalda vinnur að bættum vinnureglum varðandi upprunamerkingar.

Kaupmaður við Laugaveg benti á það nýverið í fréttum að það vantaði sérstakan gæðastimpil fyrir íslensku handprjónuðu lopapeysuna. Erlendir ferðamenn ættu erfitt með að greina vélprjónaðar peysur frá þeim íslensku handprjónuðu.

Björg Ásta Þórðardóttir, lögfræðingur Samtaka iðnaðarins, tekur undir þessi sjónarmið og segir að vandinn sé í raun víðtækari og eigi við um alla íslenska textílframleiðslu. „Ég held að það sé alveg ljóst að vandamálið er umtalsvert þegar íslensk fyrirtæki, framleiðslufyrirtæki, eru að horfa fram á það að þurfa að leggja niður framleiðslu á Íslandi einfaldlega út af því að þeir geta ekki auðkennt sig eða sérkennt sig frá vörum sem framleiddar eru erlendis.“

Björg Ásta segir að töluvert hafi verið fjallað um notkun fánans í merkingum á vörum. Þá hafi verið sett á laggirnar nefnd sem eigi að skila tillögum til stjórnvalda um bragabót í þessum efnum, fyrir fyrsta október. „Þannig að það er töluvert mikið búið að gerast. En það er samt ennþá þannig að vörur eru ekki rétt merktar.“

Samtök iðnaðarins hafi meðal annars leitað til Neytendastofu vegna slíkra mála sem hafi endað með sektargreiðslu. „Við teljum að það sé á mörgum sviðum verið að brjóta í bága við lögin. Það er til regluverk sem að tekur á þessu,“ segir Björg Ásta. „En það er spurning líka að eftirlitið þarf að vera nægjanlega mikið og Neytendastofa gerir sitt best til að taka á þessu en það þarf líka vitundavakningu - að fólk sé upplýst um það að vörur séu ekki alltaf upprunar á Íslandi þó þær séu auðkenndar sem slíkar.“

 

anna.kristin's picture
Anna Kristín Pálsdóttir
Fréttastofa RÚV