Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja tryggja rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og borgarstjóri Reykjavíkur hafa undirritað samkomulag um framkvæmd á verkefnum og hefja nauðsynlegar rannsóknir í samræmi við tillögur stýrihóps um framtíðarskipan flugvallarmála á suðvesturhorni landsins.

Rannsaka á möguleika á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni með það að markmiði að fullkanna kosti á því að reisa og reka þar flugvöll til að gegna hlutverki varaflugvallar, innanlandsflugvallar og flugvallar fyrir æfinga-, kennslu- og einkaflug. Þetta var kynnt á blaðamannafundi. 

Rekstraröryggi í Vatnsmýri tryggt

Í fréttatilkynningu segir að aðilar séu sammála um að tryggja rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, líkt og eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja. 

Stýrihópurinn hefur skilað skýrslu um framtíðarskipan flugvallamála. Þar eru lagðar fram fimm tillögur sem er ætlað að auðvelda umræðu og styðja við ákvarðanatöku um uppbyggingu þjónustu.

Eftirtalin atriði eru lögð til:

  • Millilandaflug verði áfram í Keflavík. Áfram verður haldið að byggja upp miðstöð millilandaflugs þar í samræmi við fyrri áætlanir. Kostnaðurinn er metinn á rúma 160 milljaðra króna.
  • Gerðar verða ráðstafanir til þess að Hvassahraun komi áfram til greina. Þær greiningar sem til eru benda til þess að flutningur innanlandsflugs úr Vatnsmýri til Keflavíkur sé ekki vænlegur kostur við núverandi aðstæður.
  • Ákvörðun um fýsileika Hvassahrauns verður tekin eftir að veðurmælingar og flugprófanir hafa verið gerðar.
  • Greiningarvinna verður unnin á meðan veðurmælingum stendur. Kostnaður, staðsetningar, nothæfi og skipulagssamningar verða kannaðir.
  • Egilstaðaflugvöllur verður endurbættur sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug. Markmiðið er að koma megi allt að 15 fleiri vélum fyrir á flugvellinum. 

Í stýrihópnum sem skiluðu skýrslunni sátu Eyjólfur Árni Rafnsson verkfræðingur, sem jafnframt var formaður hópsins, Elín Árnadóttir frá Isavia, Birna Ósk Einarsdóttir frá Icelandair Group, Ragnhildur Geirsdóttir frá WOW air, Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður samgönguog sveitarstjórnarráðherra, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar.