Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vilja takmarka setu á forsetastóli

20.08.2015 - 08:02
Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Hátt í 6 af hverjum 10 vilja að sett verði mörk á það hversu mörg kjörtímabil sama manneskja geti gegnt embætti forseta Íslands. Tæplega helmingur þeirra vill að setan takmarkist við 2 kjörtímabil. 17 prósent vilja ekki setja mörk. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu gerði fyrir Morgunútgáfuna.

Tæplega helmingur þátttakenda í könnuninni telur rétt að forseti sitji í embætti í þrjú kjörtímabil eða færri. Ríflegur fjórðungur vill setja mörkin við tvö kjörtímabil og rúm 20 prósent vill þrjú kjörtímabil að hámarki.

80% þeirra sem vilja setja mörk vilja þrjú tímabil eða færri
Flestir þeirra sem á annað borð vilja að fjöldi kjörtímabila verði takmarkaður telja rétt að ein og sama manneskjan sitji í embætti í tvö kjörtímabil að hámarki eða tæp 45 prósent. Tæp 37 prósent vilja að hámarkið miðist við þrjú tímabil. Þannig telja rúmlega 80 prósent þeirra sem vilja að lengd setu forseta verði sett mörk rétt að forseti sitji í þrjú kjörtímabil eða færri. Einn af hverjum tíu er hlynntur því að forseti sitji fjögur kjörtímabil.

Konur eru líklegri til að styðja að fjölda kjörtímabila verði sett mörk og sömuleiðis háskólamenntaðir. Meðal kjósenda Framsóknarflokksins eru fleiri andvígir því en hlynntir að takmörk verði sett á kjörtímabil. Meirihluti kjósenda Samfylkingarinnar, Vinstri-grænna og Pírata eru hlynntir því að mörk verði sett.

Könnunin var framkvæmd dagana 24. júlí til 13. ágúst og voru svarendur 751.

Yfirleitt sett mörk þar sem embættið er valdamikið
Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir að yfirleitt séu sett takmörk á það hversu mörg kjörtímabil forseti má sitja í embætti í löndum þar sem forsetaembættið er valdamikið. Ekki sé algengt að slík mörk séu í þingræðisríkjum þar sem forsetaembættið er valdaminna. Á síðustu árum hafi vægi íslenska forsetaembættisins þó vaxið þegar forseti beitti neitunarvaldi.

„Þá varð til möguleiki á ákveðnu mótvægi, að forsetinn gæti orðið mótvægi við meirihlutann á þingi og ríkisstjórn á hverjum tíma. Þessu var ákaft fagnað á sínum tíma af stjórnarandstöðunni 2004. Menn voru minna kátir þegar þeir voru sjálfir komnir í ríkisstjórn 2010 og 2011 og voru þá með sama forseta sem beitti þessu tvisvar gegn sitjandi ríkisstjórn. En með því að beita neitunarvaldinu eða þessu þessu valdi að neita að skrifa undir lög og vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu þá hefur þetta vægi forsetans í hugum almennings vaxið mjög mikið,“ sagði Stefanía í Morgunútgáfunni í morgun.

Tíðkast að forsetar sitji lengi
Hún segir niðurstöðurnar ekki koma sérstaklega á óvart. Afstaða fólks mótist af því hverju það er vant. Á Íslandi hefur það tíðkast að forsetar sitji lengi í embætti. Ásgeir Ásgeirsson og Vigdís Finnbogadóttir gegndu embætti forseta í fjögur kjörtímabil og Kristján Eldjárn í þrjú. Fimmta kjörtímabili Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands lýkur á næsta ári. Þá hefur hann setið í embætti í tvo áratugi. 

Mikla þýðingu fyrir stjónmálalífið ef embættið er valdamikið
Stefanía segir að þegar drög að nýrri stjórnarskrá voru mótuð var lagt til að forseti fengi heimild til setu í tvö kjörtímabil. Hún segir að eftir því sem vægi forsetaembættisins eykst þá verði mikilvægara að setja einhverjar reglur eða mörk á embættið. Með auknum völdum verði embættið pólitískara: „Ef forsetaembættið er orðið valdamikið embætti þá fer það að hafa mjög mikla þýðingu fyrir stjórnmálalífið í landinu og þeir sem til dæmis fara með ríkisstjórnarvaldið á hverjum tíma fara að hafa áhyggjur af því hver fer með embættið. Með öðrum orðum þá verður embættið miklu pólitískara heldur en það hefur áður verið. Ein af þeim ástæðum sem Ólafur Ragnar gaf upp á sínum tíma fyrir því að vilja verða við þessari áskorun um að sitja áfram var sú að hann sagði að það væri allt svo óljóst um hvernig forsetaembættið myndi þróast. Það væri í raun ekki sanngjarnt að bjóða fólki upp á það að vera kosið í embætti sem enginn vissi hvernig myndi þróast.“

 

 

Hrefna Rós Matthíasdóttir
Fréttastofa RÚV