Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vilja stórauka skógrækt í landinu

04.09.2016 - 14:57
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Skógræktarfélag Íslands vill efla skógrækt í landinu en umtalsvert hefur dregið úr gróðursetningu trjáplantna undanfarin ár.

Á aðalfundi félagsins í morgun var ályktað að sett verði það markmið að átta milljón trjáplöntur verði gróðursettar á ári á næstu fimm árum. Þá eru stjórnvöld hvött til þess að auka skógrækt á ný í landinu. Gróðursetning hafi dregist saman úr sex milljónum skógarplantna á ári 2007 niður í um þrjár milljónir. 

Þá var ályktað um að stjórn Skógræktarfélags Íslands hvetti sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu til að ljúka skipulagsvinnu og undirbúningi að gerð Græna stígsins ofan byggðar höfuðborgarsvæðisins. Stjórnin var hvött til að fylgja fast eftir ályktun frá síðasta aðalfundi um nýtingu þjóðlendna til landgræðslu og skógræktar á vegum skógræktarfélaganna. Jafnframt var ályktað um nýtingu íslensks trjáviðar við uppbyggingu á ferðamannastöðum.
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV