Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vilja skylda björgunarvesti á opnum þilförum

10.07.2017 - 12:36
Hólmavík Strandir Vestfirðir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til ráðnueytis samgöngumála að setja verði reglur sem skylda sjómenn til að nota björgunarvesti við vinnu á opnu þilfari sem og að reglur um búnað til björgunar manni úr sjó nái einnig til skipa sem eru undir 15 metrum.

 

„Tíminn er skammur þegar menn eru komnir í sjóinn, það er kalt og það að halda mönnum á floti, hjálpar til og eykur líkurnar á björgun,“ segir Hilmar Snorrason, skólastjóri slysavarnarskóla sjómanna og nefndarmaður í rannsóknarnefnd ssamgönguslysa - sjóslysa.

Ekki skylda að nota björgunarvesti

Skipverji lést á Húnaflóa í apríl 2016. Hann ásamt skipstjóra var við grásleppuveiðar þegar hann flæktist í veiðarfærunum og dróst fyrir borð. Skipverjinn hafði verið um það bil 15 mínútur í sjónum þegar skipstjóranum tókst að hífa hann um borð, meðvitundarlausan. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur. Skipverjinn var ekki í björgunarvesti en engar reglur eru um að sjómenn á opnum þilförum séu í björgunarvestum.

Nota björgunarvesti á sumum skipum

„Við höfum séð það í vaxandi mæli að uppsjávarskip og skuttogarar eru í slíkum vestum á opnum þiflörum og við teljum það vera öryggisbót að setja þá kröfu til skipa,“ segir Hilmar. Rannsóknarnefndin beinir því til ráðuneytisins að settar verði reglur sem skylda sjómenn um að nota björgunarvesti við vinnu á opnu þilfari. Hann segir að reglur sem þessar hafi verið teknar upp í Írlandi og bendir á að nú til dags séu björgunarvestin fyrirferðarlítil og á viðráðanlegu verði.

Reglur ná ekki til minni báta

Við rannsókn á slysinu á Húnaflóa kom fram að illa gekk að koma skipverjanum um borð en 1,8 metrar voru frá sjólínu upp á borðstokk á bátnum. Hilmar segir að litlu bátarnir virðist hafa setið eftir varðandi kröfur um búnað til að ná mönnum úr sjó en slíkar reglur ná einungis til báta sem eru meira en 15 metrar. Því beinir nefndin því til ráðuneytisins að reglurnar nái einnig til báta undir 15 metrum.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður