Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja ná samningum málefni fatlaðra

30.09.2019 - 11:32
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Sveitarfélagið Skagafjörður hefur lýst sig reiðubúið til að endurnýja samning við öll sveitarfélög á Norðurlandi vestra um samstarf um þjónustu við fatlað fólk á öllu svæðinu. Samstarfið hefur verið í uppnámi eftir að sveitarstjórn Húnaþings vestra sagði sig upp samningnum.

Húnaþing vestra sagði sig frá samningnum í ágúst

Byggðarráði Skagafjarðar barst erindi um miðjan ágúst frá Húnaþingi vestra um að sveitarfélagið myndi ekki endurnýja samninginn. Í framhaldi af því ákvað Byggðarráð Skagafjarðar að fara sömu leið og draga sig úr samstarfinu. Nú hefur sveitarfélagið opnað á viðræður við nærsveitarfélög. Þetta kemur fram í fundargerð sveitarstjórnar Skagafjarðar frá því í sðustu viku.

„Samstarf þetta hefur verið í gildi sl. 20 ár og verið farsælt. Ábyrgð sveitarfélaganna í málaflokknum er ríkuleg gagnvart fötluðu fólki á svæðinu sem þarf á þjónustunni að halda,“ segir í fundargerð.

Þá er lögð áhersla á það við sveitarstjórnir viðkomandi sveitarfélaga að skipaður verði starfshópur með fulltrúum allra sveitarfélaga til að vinna að yfirfærslu verkefna og þjónustu. 

Samstarf frá árinu 1999

Allt frá árinu 1999 hafa sveitarfélög á Norðurlandi vestra unnið sameiginlega að málefnum fatlaðra í gegnum nokkra samstarfssamninga. Sveitarfélögin gerðu með sér samning í janúar 2016, þar sem Akrahreppur, Blönduósbær, Húnavatnshreppur, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagaströnd og Húnaþing vestra sömdu við Sveitarfélagið Skagafjörð um að vera leiðandi sveitarfélag í málefnum fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra. Sá samningur rennur út um næstu áramót.