Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja minnka neyslu dýraafurða í skólum

25.08.2019 - 19:37
Mynd: RÚV / RÚV
Fulltrúi í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar segir meirihlutann einhuga um að skoða að minnka framboð á dýraafurðum verulega í grunnskólum borgarinnar. Samtök grænkera hafa hvatt yfirvöld til að hætta að bjóða upp á dýraafurðir í skólum.

Samtök grænkera á Íslandi sendu sveitarfélögum áskorun í vikunni um að hætta alveg að bjóða dýraafurðir eða draga verulega úr framboði þeirra í mötuneytum skóla í ljósi hamfarahlýnunar. Samtökin segja að hægt væri að byrja á að bjóða upp á tvo valkosti og sýna kolefnisspor máltíða, að hætta alveg að bjóða upp á dýraafurðir eða að minnka framboð dýraafurða í skrefum. Samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna veldur kjöt- og dýraafurðaframleiðsla um 15 prósentum af allri losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. 

„Það er í rauninni mikilvægt að minnka kjötneyslu alls staðar en það er gott skref að byrja í skólum og það er kannski aðallega vegna þess hversu óumhverfisvænt það er að framleiða kjöt. Að framleiða grænkeramat er mun umhverfisvænna en kjötframleiðsla. Það eru allavega margir foreldrar sem vilja gera sitt besta og hafa börnin sín á vegan- eða grænkerafæði og þurfa þá að mæta einhverri mótspyrnu í kerfinu,“ segir Benjamín Sigurgeirsson, formaður Samtaka grænkera á Íslandi.

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, sem einnig situr í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar segir vert að skoða þetta. „Mér finnst alveg þess virði að skoða það og ég er hæstánægð með yfirlýsingu grænkera sem er mikil og góð hvatnig. Ég held að það sé skynsamlegt og ég held að það sé öllum ljóst að við ætlum að grípa til einhverra aðgerða. Við samþykktum matarstefnu á síðasta kjörtímabili sem við erum að innleiða núna og svo erum við að fara að taka til endurskoðunar aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og þar kemur þetta vel inn,“ segir hún.

Líf segir að maturinn hafi verið tekinn í gegn fyrir nokkrum árum og nú sé meginuppistaðan grænmeti, ávextir og mjólk. Þá sé miðað við að hafa fisk tvisvar í viku og kjöt einu sinni til tvisvar. Alltaf sé eitthvert framboð af grænmetisréttum. Hún segir einhug hjá meirihlutanum í Reykjavík að skoða það að minnka framboð dýraafurða verulega í grunnskólum borgarinnar.

„Það er auðvitað ekki nóg að hafa góða stefnu vegna þess að við þurfum að tryggja fjármuni til hennar. Það er mikill einhugur í þessum meirihluta að skoða þessi mál heildstætt og tryggja þá fjármuni sem þarf til að innleiða sannarlega það sem við höfum samþykkt og er gott fyrir menn og umhverfi.“

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV