Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja lög um kolefnahlutleysi fyrir 2050

04.03.2020 - 11:49
Mynd: EPA-EFE / EPA
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnir í dag frumvarp að lögum að ríki Evrópusambandsins verði kolefnahlutlaus fyrir árið 2050. Frumvarpið fylgir í kjölfar funda leiðtoga Evrópusambandsríkja í fyrra þar sem samþykkt var að stefna að þessu marki. Drögin eru kynnt sama dag og Greta Thunberg mætir á fund nefndar hjá þingi Evrópusambandsins. Greta gaf þó lítið fyrir markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 í yfirlýsingu í gær. Hún að önnur ungmenni sögðu það alltof seint í rassinn gripið.

Samkvæmt frétt AFP á að veita framkvæmdastjórn Evrópusambandsins aukin völd til að knýja aðildarríki til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Slíkt kann að falla í grýttan jarðveg hjá ríkisstjórnum og þjóðþingum aðildarríkjanna auk þings Evrópusambandsins. Ríkisstjórnir og þing Evrópusambandsins verða að staðfesta frumvarpið áður en það verður að lögum og geta gert á því breytingar.

Greta Thunberg mætti í höfuðstöðvar Evrópusambandsins í morgun. Hún verður viðstödd fund framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og mætir svo á fund þingnefndar hjá þingi Evrópusambandsins. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV