Vilja láta handtaka spillta ráðamenn í Namibíu

16.11.2019 - 18:39
Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Drengsson - RÚV
Hópur mótmælenda gekk að skrifstofum namibísku spillingarlögreglunnar ACC og krafðist þess að ráðamenn sem eru sakaðir um spillingu verði handteknir án tafar. Mótmælendurnir vilja jafnframt að eignir verði haldlagðar og bankainnstæður frystar.

Samkvæmt frétt namibísku ríkissjónvarpsstöðvarinnar NBC kröfðust mótmælendur þess jafnframt að Paulus Noa, yfirmaður ACC, segði af sér. Hann væri óhæfur og gæti ekki náð árangri í baráttunni gegn spillingu.

„Niður með spillingu, niður,“ sagði einn mótmælenda. „Við þurfum að sameinast gegn fólki sem stelur frá okkur og komandi kynslóðum,“ sagði annar.

Eftir að mótmælendur hótuðu að ráðast inn á skrifstofu Noa kom hann út til að svara kröfum þeirra, en að sögn NBC var hann þá hrópaður niður.

Bernardt Esau sjávarútvegsráðherra og Sacky Shangala dómsmálaráðherra sögðu af sér í vikunni eftir að ljóstrað var upp um greiðslur Samherja.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi