
Vilja laga höfnina áður en ný ferja er smíðuð
Undanfarið hefur verið mikil umræða um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju. Þegar Landeyjahöfn var hönnuð var eitt af skilyrðum hönnunarinnar að smíðuð yrði ný ferja sem passaði höfninni. Útboðsgögn um slíka ferju hafa verið tilbúin á borði Innanríkisráðherra í rúman mánuð. Á síðustu vikum hafa margir gagnrýnt hönnun ferjunnar og haldið því fram að ferjan henti ekki nógu vel til siglinga til Þorlákshafnar og vafasamt sé að hún ráði við þá ölduhæð sem gengið sé út frá.
Vantreysta Vegagerð, ráðuneyti og bæjarstjórn
Nálægt 50 prósent svarenda bera mjög lítið eða frekar lítið traust til Bæjarstjórnar Vestmannaeyja til að taka ákvarðanir um framtíðarskipulag varðandi sjósamgöngur á milli lands og Eyja. Traust til bæjarstjórnarinnar hefur minnkað um 16 prósentustig í þessu frá sambærilegri könnun 2015, niður í 34 prósent. Eyjamenn treysta Innanríkisráðuneytinu og Vegagerðinni enn verr til til sams konar ákvarðana. Alls bera 58 prósent svarenda mjög lítið eða frekar lítið traust til ráðuneytisins í þessu efni og 74 prósent til Vegagerðarinnar.
Könnun MMR var símakönnun, gerð 19. febrúar til 2. mars. Úrtak var 874 Vestmannaeyingar 18 ára og eldri, 515 svöruðu, eða tæp 59 prósent. Af þeim telja 93 prósent ólíklegt eða fremur ólíklegt að Landeyjahöfn geti þjónað siglingum til Eyja árið um kring. Niðurstöður könnunarinnar má sjá hér: http://eyjar.net/skrar/file/2016/1602-eyjarnet-final-samgongur.pdf